Samgöngustefna

Samgöngustefnan var samþykkt í háskólaráði 27. apríl 2012

Samgöngustefna 2012-2017

Inngangur

Umhverfisráð hefur starfað við Háskólann á Akureyri frá upphafi árs 2008. Frá þeim tíma hefur áherslan verið á að fá vottun um Grænfána frá Landvernd og unnið hefur verið að bættri umgengni, sorphirðu og vitundarvakningu um umhverfismál innan skólans.

Þessi samgöngustefna er lögð fram af umhverfisráði samhliða umhverfisstefnu, sem lið í að HA öðlist vottun Landverndar fyrstur háskóla hér á landi. Í þessari stefnu verður farið yfir markmið hennar, leiðir að því, hvaða áhrif stefnan kemur til með að hafa og hvað þarf til að hún gangi eftir.

Samgöngustefnan er stefnumótandi og lýsir því hvernig Háskólinn á Akureyri sér fyrir sér framtíð samgöngumála við stofnunina sem lið af umhverfisvernd. Henni er ekki ætlað að vera bindandi er kemur að þeim framkvæmdum sem taldar eru nauðsynlegar og hefur ekki að geyma skuldbindingu gagnvart tímaáætlunum sem settar eru fram. Þær eru til leiðbeiningar.

Markmið

Háskólinn á Akureyri setur sér það markmið að draga úr notkun einkabíla hjá starfsfólki og nemendum skólans. Þannig er ætlunin að draga úr umferð á háskólalóðinni í þágu öryggis, umhverfisverndar og heilsueflingar. Þannig er markmið stefnunnar að fá nemendur sem og starfsfólk til að nýta aðra samgöngumöguleika s.s. almenningsvagna, hjól eða að fara gangandi.

Vörður – leiðir að markmiði

Til að ná skilgreindu markmiði verða farnar tvennskonar leiðir.

Annarsvegar með áherslu á hvatningu og upplýsingagjöf sem beint verður til alls starfsfólks og nemenda skólans. Hinsvegar með innleiðingu starfshátta við skólann. Hvað varðar hvatningu og upplýsingagjöf verður áherslan á:

 • Starfsmenn og nemendur skólans eru hvattir til þátttöku í „bíllausa deginum“, átakinu „hjólað í vinnuna“ á hverju hausti, og í „lífshlaupinu“
 • Starfsmenn og nemendur skólans eru hvattir til að samnýta bíla sína, sérstaklega í lengri ferðir. Þannig mun háskólinn koma upp tenglum á heimasíðu sinni (og á heimasíðu FSHA) við vefi á borð við samferda.is og bilfar.is.
 • Starfsmenn og nemendur skólans eru hvattir til að nýta sér ókeypis strætisvagnaþjónustu Akureyrarbæjar
 • Starfsmenn og nemendur skólans eru hvattir til að til að koma gangandi þegar veður og færð leyfa
 • Starfsmenn og nemendur skólans eru hvattir til að koma hjólandi þegar veður og færð leyfa
 • Við allar nýframkvæmdir við byggingar og lóð skólans verði umferðarþörf og -þróun skilgreind og áhrifin metin
 • Háskólinn taki þátt í tilraunum með ný samgöngutæki og samgöngumáta sem þróuð verða, s.s. raf- metangasknúin ökutæki. Háskólinn tekur þátt í nýjungum frá Orkusetri á þessu sviði
 • Háskólinn komi fyrir tengli á sínar síður þá umhverfisvísa sem í boði eru og verða þróaðir í bænum, m.a. um loftgæði
 • Háskólinn komi fyrir á heimasíðu tengli á leiðarkerfi Strætisvagna Akureyrar og tengli á vef strætó.is, sem veitir upplýsingar um allar leiðir

Áhersla verður lögð á að koma hvatningu og upplýsingagjöf að gegnum heimsíðu, tölvur (skjáhvílur) og upplýsingaskjái skólans, gegnum umhverfisábendingar sem sendar eru starfsfólki og nemendum rafrænt og gegnum Ruslpóstinn, blað FSHA. Einnig má hvetja til stofnunar göngu- hjóla- eða heilsueflingarhópa sem hafa að markmiði að gera hreyfingu hluta af daglegu lífi.

Hvað varðar starfshætti verður áherslan á:

 • Að skilgreina frekar klukkustæði á háskólalóðinni og fylgja eftir með sektum að þeim reglum verði fylgt
 • Að aðstoða Strætisvagna Akureyrar við að skilgreina þjónustuþörf notenda vagnanna og með hvaða hætti þeir nýta sér þá, t.d. með lokaverkefnum nemenda háskólans
 • Að bæta merkingar og umferðarstýringu á háskólalóðinni, til þess nýtist innkoma sem verður af innheimtu sekta

Enn frekar verður horft til þróunar í samgöngustefnu og -málum annarra háskóla á Norðurlöndum og í Evrópu til að innleiða nýjar aðferðir og hugmyndir sem styðja við markmið þessarar stefnu. Gegnum þessar vörður er markmiðið að hlutfall starfsfólks og nemenda sem kemur á einkabíl í skólann niður fyrir 60% fyrir 2017.

Jákvæð áhrif samgöngustefnu HA

Með formlegri samgöngustefnu þar sem unnið er eftir þeim skilgreindu leiðum sem að ofan eru taldar nást fram jákvæð áhrif á nokkrum sviðum:

 • Öryggi vegfarenda. Með því að draga úr umferð vélknúinna ökutækja á háskólalóðinni eykst öryggi gangandi vegfarenda. Með minni umferð dregur líka úr hættu á árekstrum og tjóni sem hlýst af akstri við þröngar og erfiðar aðstæður
 • Minni mengun. Mengun og svifryk eru viðvarandi vandamál á Akureyri, sérstaklega að vori. Með minni umferð um lóð skólans aukast loftgæði á skólalóðinni
 • Bætt ímynd skólans – hluti af Grænfána. Skólinn getur markað sér sess sem leiðandi meðal íslenskra háskóla í umhverfismálum með því að hljóta fyrstur Grænfánavottun Landverndar
 • Heilsubót. Liður í bættri heilsu og þar með starfsánægju fólks er hreyfing. Að hvetja til hreyfingar ætti því að efla starfsanda og afköst innan stofnunarinnar
 • Almenningssamgöngur eflast til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Með því að nemendur og starfsfólk háskólans nýti sér almenningssamgöngur eflist forsenda almenningssamgangna og rekstrargrundvöllur þeirra sem gagnast öllum bæjarbúum

Innviðir

Þegar kemur að innviðum skólans þarf að huga að því að auðvelda fólki að koma á annan hátt en með einkabíl. Þannig þarf að huga að:

 • Aðstöðu fyrir starfsfólk og nemendur til að þurrka föt og bursta af skóm
 • Fjölgun drykkjarvatnsbrunna
 • Yfirbyggðri aðstöðu og grindur fyrir hjól
 • Fjölgun merktra göngu- og hjólaleiða á skólalóðinni, þar sem fótgangandi eða hjólandi hafa forgang
 • Skapa þarf svæði þar sem hægt verður að leggja rafskutlum og öðrum umhverfisvænum fararskjótum, sem næst inngöngum í skólann
 • Markmiðið er að strætisvagnaleiðir færist nær anddyri háskólans en til þess þarf deiliskipulagsbreytingu sem leyfir gerð akbrautar sunnan við Íslandsklukku. Þannig verður til ákjósanleg aðkoma fyrir strætisvagna
 • Samvinnu við Akureyrarbæ og önnur sveitarfélög á svæðinu sem er nauðsynleg. Tryggja þarf hagsmuni háskólans skv. þessari stefnu í þeirri samvinnu. Liður í því er að tryggja að almenningssamgöngur sem tengja bæinn við nærliggjandi sveitarfélög taki mið af háskólanum

Hvatar

Hvati þess að markmið samgöngustefnunnar nái fram að ganga er fyrst og fremst upplýsingagjöf sem með tímanum mun leiða til viðhorfsbreytingar meðal nemenda og starfsfólks skólans gagnvart notkun einkabíls. Skólinn getur auk þess lagt nokkuð af mörkum með:

 • Heilsueflingarátaki sem leggur áherslu á samþættingu líkamsræktar og hreyfingar í daglegu lífi
 • Að efla tækifæri starfsfólks og nemenda til að vinna heima

Samþætting

Samgöngustefna Háskólans á Akureyri horfir til þróunar í almenningssamgöngum í sveitarfélögum á Eyjafjarðarsvæðinu. Akureyrarbær hefur ekki samgöngustefnu og samtök sveitarfélaga í Eyjafirði og í Þingeyjarsýslum hafa ekki markað sér slíka stefnu. Akureyrarbær og sveitarfélögin taka þó þátt í verkefni á vegum hins opinbera sem lýtur að því að færa almenningssamgöngur í hendur sveitarfélaga og er það mikilvægt í þessu samhengi.

Aðgerðaáætlun

Að neðan eru tilgreind þau verkefni sem ráðast þyrfti í í tengslum við þessa samgöngustefnu. Ábyrgð á framkvæmd ræðst af eðli verkefnis, en gera má ráð fyrir að rektor og/eða framkvæmdastjóri taki frumkvæði í að skipuleggja framkvæmd á grunni stefnunnar.

Aðgerðaáætlun samgöngustefnu HA      
Verkefni 2012 2013 2014 2015 2016 2017
Hvatning til þátttöku í átaki á landsvísu x x x x x x
Tenglar settir á heimasíðu   x        
Hvatning til að nýta strætisvagna, ganga, hjóla x x x x x x
Kynning á verkefnum Orkuseturs   x        
Ákvarða nýtingu þess fjár sem fæst við sektir   x        
Gera lokaverkefni um SVAK   x        
Merkingar og umferðarstýring á lóð   x x      
Þurkaðstaða fyrir starfsfólk     x      
Vatnsbrunnar fyrir starfsfólk og nemendur     x      
Bygging hjólaskýla     x x    
Deiliskipulagsbreyting vegna breyttrar aðkomu            
Hefja viðræður við sveitafélög um samræmingu   x