Fundur var haldinn fimmtudaginn 25. september 2025 á Sólborg, Norðurborg og Teams
Rektor Áslaug Ásgeirsdóttir setti fund kl. 13:30.
Mætt voru auk hennar:
Unnar Jónsson fulltrúi ráðherra
Rakel Rún Sigurðardóttir fulltrúi stúdenta
Guðmundur Kristján Óskarsson fulltrúi háskólasamfélagsins
Sigríður Sía Jónsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins
Ottó Elíasson fulltrúi háskólaráðs
Bryndís Fiona Ford fulltrúi háskólaráðs
Einnig mætt:
Sindri S. Kristjánsson skrifstofustjóri rektorsskrifstofu
Gestir:
Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu
Helga María Pétursdóttir forstöðumaður fjármála og greiningar
Rektor kynnti dagskrá.
1. Fjármál og rekstur
2502081
Helga María Pétursdóttir og Hólmar Erlu Svansson sátu fund háskólaráðs undir þessum lið.
Helga María og Hólmar kynntu fyrir háskólaráði rekstur háskólans á tímabilinu janúar – ágúst 2025. Líkt og í öðrum kynningum þessa árs er rekstrarstaða í góðu jafnvægi. Þó er farið að bera á halla í rekstri einstaka deilda í rekstraryfirlitinu sem kallar á greiningu á orsökum. Rætt var um mögulegar orsakir og hvernig er alla jafna við þeim brugðist við þeim innan fræðasviða í samstarfi við háskólaskrifstofu. Þá var rætt um stöðu sértekjueininga í rekstraryfirlitinu og skýringar veittar á því hvernig rekstur þeirra er frábrugðinn rekstri fræðasviða og stoðþjónustu og stjórnsýslu háskólans.
2. Fundaskipulag og starfsáætlun 2025-2026
2509077
Rektor kynnti fundaskipulag og starfsáætlun háskólaráðs 2025-2026. Áætlunin er lögð fram með þeim fyrirvara að hún sé til viðmiðunar og nauðsynlegar breytingar verði gerðar eftir aðstæðum og þörfum hverju sinni.
3. Erindi heilbrigðisráðuneytis til háskólaráðs
2509095
Lagt fram til kynningar erindi heilbrigðisráðuneytisins frá 10. september sl. um hugmyndir um breytingar á námskrá í hjúkrunarfræði. Rektor gerði grein fyrir málinu.
4. Erindi frá starfsfólki til háskólaráðs
2509047
Lagt fram erindi hóps starfsfólks við háskólann þar sem hvatt er til að hefja akademíska sniðgöngu gegn Ísrael. Samkvæmt erindinu er í því fólgið að slíta annars vegar öll tengsl við ísraelska háskóla og aðrar menntastofnanir og hins vegar að stofna ekki til frekari tengsla við ísraelska háskóla. Háskólaráð ræddi erindið.
Háskólaráð felur rektor að kanna hvort starfsmenn Háskólans á Akureyri eigi í akademísku samstarfi við ísraelska háskóla eða aðrar menntastofnanir þar í landi og upplýsa háskólaráð um niðurstöður athugunarinnar.
Afgreiðslu frestað.
5. Ákvörðun um innritun um áramót 2025-2026
2509048
Rektor gerði grein fyrir tillögu að ákvörðun um innritun í háskólann um áramótin 2025-2026. Tillagan var samþykkt.
Ekki er gert ráð fyrir almennri innritun nýrra nemenda um áramót. Ákvörðun um innritun í einstakar deildir um áramót er vísað til forseta fræðasviða og stjórna fræðasviðanna, að teknu tilliti til stöðu mála í einstökum deildum, s.s. nemendafjölda, fjármögnunar og fjárhagsstöðu deilda og fræðasviða.
6. Samstarf háskóla – samtal við Háskólann á Bifröst
2404025
Rektor fór yfir það sem unnist hefur í viðræðum við Háskólann á Bifröst um mögulega sameiningu háskólanna tveggja frá síðasta fundi háskólaráðs. Nýverið kom fram greinagerð lagahóps sem settur var á fót í tengslum við verkefnið, en lagahópurinn fékk það verkefni að greina kosti og galla mögulegra sviðsmynda um stjórnskipulag nýs sameinaðs opinbers háskóla, greina mögulegar sviðsmyndir sem snúa að réttindum og skyldum beggja háskóla og greina með hvaða hætti væri unnt að starfrækja sjálfseignastofnun í tengslum við nýjan og sameinaðan háskóla.
Háskólaráð ræddi stöðuna ítarlega. Ekki gafst nægur tími til að ljúka umræðum og var fundi frestað þar til kl. 8:00 miðvikudaginn 1. október 2025.
Fundur settur aftur kl. 8:00 miðvikudaginn 1. október 2025. Staða mála og framhaldið ítarlega rætt.
Viðræður um sameiningu Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst sem átt hafa sér stað undanfarin misseri hafa hvílt á tveimur meginforsendum. Sú fyrri er að mögulegt væri að sameina rekstrarform skólanna og að nýr skóli yrði áfram opinber háskóli. Sú síðari er að úr eignum sjálfseignastofnunarinnar Bifrastar væri hægt að setja á fót öflugan rannsóknarsjóð. Á þessu ári hafa háskólarnir unnið að frekari greiningum og hafa þær m.a. sýnt að þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar í upphafi hafa ekki staðist nánari rýni.
Forsendan um að hægt væri að sameina rekstrarform skólanna og að nýr skóli yrði áfram opinber háskóli er brostin. Háskólinn á Akureyri er opinber háskóli og starfsfólk hans opinberir starfsmenn en Háskólinn á Bifröst sjálfeignarstofnun og réttindi starfsmanna hans samkvæmt því. Við vinnuna hefur orðið ljóst að ekki verður mögulegt að sameina starfsemina með þeim hætti sem lagt var upp með. Þegar það varð ljóst voru skoðaðar ýmsar sviðsmyndir um hvernig væri hægt að tengja saman nýjan opinberan háskóla og sjálfseignarstofnun á hagstæðan hátt. Er það mat háskólaráðs að vinna að slíkum breytingum yrði langt og erfitt ferli sem hefði veruleg áhrif á alla starfsemi Háskólans á Akureyri. Hefur háskólaráð efasemdir um að sameiningin sé yfir höfuð gerleg. Að lokum var skoðað hvort sameinaður skóli gæti orðið opinber stofnun sem innihéldi sjálfseignarstofnun, í þeim skilningi að opinberi háskólinn færi með yfirráð og sjálfseignarstofnunin yrði dóttir í lagalegum skilningi samstæðu. Ekki eru til þekkt dæmi um slíkt fyrirkomulag.
Hin forsendan var að með sölu eigna Bifrastar og með framlagi frá stjórnvöldum væri hægt að setja á fót öflugan rannsóknarsjóð á vegum nýs opinbers háskóla, þar sem rannsóknarsjóðurinn þyrfti að vera áfram sem sjálfseignarstofnun á kennitölu Bifrastar. Greiningavinna hefur leitt í ljós að nýr opinber háskóli gæti ekki haft stefnumótandi og stýrandi aðkomu að slíkum rannsóknarsjóði. Því eru þær forsendur einnig brostnar.
Sameining við annan háskóla utan höfuðborgarsvæðisins getur haft sína kosti og falið í sér tækifæri, m.a. með mögulegum samlegðaráhrifum, bæði faglega og rekstrarlega. Þetta ætti sérstaklega við um stoðþjónustu skólanna og þær þrjár deildir sem hægt hefði verið að sameina. Aftur á móti er viðbúið að það langa ferli sem fyrirséð er að sameiningin tæki, gæti haft neikvæð áhrif á allar átta deildir Háskólans á Akureyri. Háskólinn á Akureyri er mikilvæg stofnun fyrir Akureyri og þjónar í sívaxandi mæli Íslandi öllu. Hann er mikilvæg kjölfesta og skiptir miklu máli fyrir samkeppnishæfni svæðisins og landsbyggðarinnar allrar, t.a.m. atvinnulíf, búsetugæði, menningu og fræðasamfélag.
Eitt af meginverkefnum háskólaráðs Háskólans á Akureyri er að styrkja skólann enn frekar. Í þessu sambandi má nefna eflingu námsframboðs við skólann auk markvissrar vinnu að áherslum stjórnvalda, svo sem uppbyggingar öflugs doktorsnáms, nýrra örnámsleiða og styrkingu náms við STEM greinar. Kröfur um frekari uppbyggingu Háskólans á Akureyri hafa sömuleiðis komið fram með skýrum hætti frá fræðasamfélaginu innan háskólans, stúdentum, bæjaryfirvöldum og samfélaginu öllu í tengslum við umræður um sameiningu. Er það markmið háskólaráðs Háskólans á Akureyri að nýta þann mikla meðbyr í samfélaginu til frekari styrkingar og uppbyggingar á öflugum háskóla á landsbyggðinni.
Að öllu framangreindu virtu ákveður háskólaráð Háskólans á Akureyri að slíta viðræðum við Háskólann á Bifröst um hugsanlega sameiningu háskólanna. Háskólaráð þakkar þeim fjölmenna hópi stjórnenda, starfsfólks og stúdenta Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst sem tekið hefur þátt í þessum viðræðum. Samtalið hefur verið uppbyggilegt og gagnlegt. Háskólaráð Háskólans á Akureyri vill koma á framfæri velvild snni og ánægju með þá góðu vinnu sem unnin hefur verið vegna hugsanlegrar sameiningar háskólanna.
7. Bókfærð mál til samþykktar
- Stjórn Végeirsstaðasjóðs
2509007
- Rannsóknamisserisnefnd
2508074
- Fagráð um viðbrögð við einelti, ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan Háskólans á Akureyri
2509076 Ofangreind mál eru samþykkt.
8. Til fróðleiks og upplýsinga
Fleira ekki gert og fundi slitið 1. október kl. 9:07