Árangur, áhrif og áskoranir háskólaneta

Tengslaráðstefna um evrópsk háskólanet
Hildur Friðriksdóttir á ráðstefnunni
Hildur Friðriksdóttir á ráðstefnunni

Hildur Friðriksdóttir, verkefnastjóri og alþjóðafulltrúi hjá Miðstöð alþjóðasamskipta, sótti í október síðastliðnum tengslaráðstefnuna Putting it into practice í Bonn í Þýskalandi. Viðfangsefni ráðstefnunnar var áhrif evrópskra háskólaneta og markmið þess að miðla reynslu og árangri slíkra neta til háskóla sem standa utan þeirra.

Áhrif háskólanetanna eru talin jákvæð, þau draga úr spekileka, eru drifkraftur kennsluþróunar og nýrra leiða til að efla hreyfanleika nemenda svo nefnd séu dæmi. Slíku samstarfi fylgja líka áskoranir og voru þær ræddar á ráðstefnunni. Mismunandi matskerfi og lagarammar flækja uppbyggingu nýrra námsleiða, álag á starfsfólk og stór net þung í vöfum eru meðal þess sem rætt var um. Líklegt er að háskólanet framtíðar verði fámennari og markvissari.

„Innsýn í þróun háskólastarfs í Evrópu“

Hildur segir alþjóðlegt samstarf lykilinn að framþróun í háskólastarfi: „Með því að taka þátt í ráðstefnum eins og þessari styrkjum við tengslanetið okkar, fáum nýjar hugmyndir og aukna innsýn í þróun háskólastarfs í Evrópu. Það skapar tækifæri til þess að efla allt okkar starf – bæði gæði náms og rannsókna – og styrkir jafnframt stöðu Háskólans á Akureyri á alþjóðavettvangi.“

Í dag er háskólinn ekki þátttakandi í háskólaneti og því var ráðstefnan kjörinn vettvangur fyrir háskólann til að taka þátt í sameiginlegri stefnumótun innan evrópska háskólasamfélagsins. Evrópusambandið stefnir ekki að því að fjármagna fleiri net og því ljóst að margir háskólar munu áfram standa utan þeirra, en þá fylgir ákveðin áskorun í því að finna leiðir til að miðla reynslu og niðurstöðum vinnu þeirra.

Líkt og Hildur nefnir eru helstu tækifæri háskólans fólgin í því að nýta hugmyndir og reynslu háskólanetanna þó að bein þátttaka sé ekki möguleg. Það sé gert með því að efla markvisst tengslanet við samstarfsskóla og þannig byggja undir stuðning við kennara og starfsfólk sem vinnur að alþjóðlegum verkefnum.