Fjölbreyttar rannsóknir í menntavísindum

Nýtt tölublað TUM – tímarits um uppeldi og menntun er komið út
Fjölbreyttar rannsóknir í menntavísindum

Út er komið 2. tölublað, 34. árgangur tímarits um uppeldi og menntun. Í útgáfunni eru alls 11 ritrýndar greinar sem endurspegla fjölbreyttar rannsóknir og fræðilega umræðu á sviði uppeldis og menntamála. Þar á meðal er grein eftir fræðafólk við Háskólann á Akureyri sem fjallar um eitt brýnasta viðfangsefni samtímans í háskólastarfi – notkun gervigreindar.

Gervigreindin í háskólastarfi

Greinin ber heitið „ChatGPT í háskólastarfi: viðhorf og notkun kennara“ og er eftir Jórunni Elídóttur, dósent, og Sólveigu Zophaníasdóttur, aðjúnkt, báðar við Kennaradeild. Í greininni er fjallað um viðhorf og reynslu háskólakennara af notkun gervigreindarverkfærisins ChatGPT í kennslu og rannsóknum, með hliðsjón af TAM-líkaninu (Technology Acceptance Model).

Rannsóknin byggir á megindlegum og eigindlegum gögnum sem aflað var með spurningakönnun meðal 23 háskólakennara. Niðurstöðurnar sýna að flestir kennaranna telja ChatGPT gagnlegt í kennslu og rannsóknum. Þó koma fram áhyggjur, einkum varðandi notkun nemenda á gervigreind, fræðileg heilindi og áreiðanleika. Viðhorf kennaranna mótast meðal annars af skynjaðri gagnsemi ChatGPT, einfaldleika í notkun og þeim stuðningi og fræðslu sem þeim stendur til boða.

Höfundar leggja áherslu á mikilvægi þess að háskólasamfélagið móti skýra stefnu um notkun gervigreindarverkfæra og efli gervigreindarlæsi bæði kennara og nemenda. Slík nálgun er talin lykilatriði til að stuðla að ábyrgri, gagnrýninni og skapandi notkun gervigreindar í háskólastarfi.

Mikilvægur vettvangur fræðilegrar umræðu

Tímaritið er fræðilegt tímarit á sviði menntavísinda og gefið út í samstarfi Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og Félags um menntarannsóknir.

Ritstjórn tímaritsins er í höndum fræðafólks frá báðum háskólum. Fyrir hönd Háskólans á Akureyri er Sigríður Margrét Sigurðardóttir, dósent við Kennaradeild HA, ritstjóri og sinnir þar með lykilhlutverki í faglegri umsjón og þróun tímaritsins.

Útgáfa nýs heftis TUM undirstrikar áfram mikilvægt hlutverk tímaritsins sem vettvangs fræðilegrar umræðu um menntun og uppeldi og sýnir jafnframt sterka þátttöku fræðafólks við Háskólann á Akureyri í rannsóknum og þróun á þessu sviði.

Smelltu hér til að nálgast nýjasta eintakið af TUM.