Páll Björnsson, prófessor við Félagsvísindadeild, afhendir Áslaugu Ásgeirsdóttur eintak af bókinni Dagur þjóðar
Páll heimsótti Áslaugu Ásgeirsdóttur rektor á skrifstofu hennar í morgun og afhenti henni þar eintak af bókinni Dagur þjóðar. Páll gaf út bókina snemma í haust og er hún sögulegt ferðalag um hátíðarhöld og þjóðernisvitund.
Í bókinni er lögð sérstök áhersla á 17. júní áður en lýðveldið var stofnað og þar hittir lesandinn fyrir félaga úr sjálfstæðishreyfingunni, ungmennafélögunum, íþróttahreyfingunni og alþýðuna sjálfa.
Þá er gaman að segja frá því að á dögunum tók Markús Þórhallsson fréttamaður viðtal við Pál sem gefið var út sem hlaðvarp. Þar ræða Markús og Páll til dæmis það sem einkennir þjóðríki nútímans og ýmislegt það sem ekki hefði orðið til í samfélögum fortíðar. Fjallkonan og íþróttir koma við sögu, sjálfsmynd og þjóðbúningar ásamt nýlegum hátíðardögum sem á einhvern hátt keppa við þjóðhátíðardaginn sjálfan. Smellið hér til að hlusta á hlaðvarpið.
Páll mætti einnig í Kiljuna 1. október og sagði þar frá bókinni í skemmtilegu og áhugaverðu spjalli við Egil Helgason við Arnarhól. Til að horfa á innslagið í Kiljunni smellið hér.