Stofnun Vilhjálms Stefánssonar (SVS) við Háskólann á Akureyri hlaut á dögunum rannsóknarstyrk sem samstarfsaðili frá NordForsk-sjóði sem kallast Sjálfbær þróun á heimskautasvæðum (e. Sustainable Development of the Arctic). Verkefnið heitir Sjálfbær manngerð notkun sjávarsvæða á heimskautunum (e. Sustainable Human Use of the Arctic Marine Environment -SustainME).
Verkefnið er leitt af Háskólanum í Ottawa í Kanada í samvinnu með Hafrannsóknastofnun Noregs og er verkefnið til fimm ára. Sautján tofnanir eru samstarfsaðilar í verkefninu og heildarstyrkur verkefnisins er rúmar 670 milljónir íslenskra króna. Þar af koma tæpar 20 milljónir til SVS.
Joan Nymand Larsen, rannsóknarstjóri SVS og prófessor við Félagsvísindadeild, er aðalrannsakandi stofnunarinnar í verkefninu. Hún og Jón Haukur Ingimundarson, rannsakandi við SVS og dósent við Félagsvísindadeild, stýra rannsóknum á fæðuöryggi á Norðurslóðum, meðal annars með vettvangsrannsóknum í Ilulissat á Grænlandi.
Fæðuöryggi og velferð samfélaga meðal áherslna
Meginmarkmið verkefnisins er að skapa með fleiri stofnunum nýja þekkingu sem styður sjálfbæra nýtingu á ofangreindu svæði. Í dag hefur minnkandi hafís og aukið álag vegna mannlegrar starfsemi samverkandi áhrif á lífríki og vistkerfi hafsins á Norðurslóðum. Verkefninu er sérstaklega ætlað að greina og meta lausnir sem geta dregið úr áhrifum og áhættu sem tengjast þessum þáttum.
Hluti verkefnisins er meðal annars leiddur af Joan og snýr hann að fæðuöryggi á Norðurslóðum. Þar er lögð áhersla á velferð í tengslum við andlega og líkamlega heilsu, efnahagslegt öryggi samfélaga og öruggar leiðir til lífsviðurværis. Einnig er áhersla lögð á að skoða fæðuöryggi bæði hvað varðar sjálfsöflun næringar og aðkeyptrar. Þá verða í þessum hluta verkefnisins gerð skil á hafís og hafsskilyrðum, sjóflutningum og lifandi auðlindum hafsins í samhengi við velferð samfélaga og fæðuöryggi.
SVS mun vinna í samstarfi við rannsóknaraðila frá Háskólanum í Ottawa, Háskólanum í Manitoba, Háskólanum í Calgary, Toronto Metropolitan University, Háskólanum í Montréal, Hafrannsóknastofnun Noregs, Norskri heimskautastofnun, norsku Veðurstofunni, UiT – Norðurslóðaháskóla Noregs, dönsku Veðurstofunni og finnsku Veðurstofunni.
Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar um verkefnið.