Doktorsvörn í félagsvísindum

Lara Wilhelmine Hoffmann ver doktorsritgerð sína

Miðvikudaginn 14. desember 2022 mun Lara Wilhelmine Hoffmann verja doktorsritgerð sína í félagsvísindum við Háskólann á Akureyri. Doktorsritgerðin ber heitið Aðlögun innflytjenda á Íslandi: Huglægar vísbendingar um aðlögun innflytjenda á Íslandi byggðar á tungumáli, fjölmiðlanotkun og skapandi iðkun (e. The Integration of Immigrants in Iceland: Subjective Indicators of Integration Based on Language, Media Use, and Creative Practice).

Vörnin fer fram á ensku í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri kl. 13:00 og er öllum opin.

Vinsamlegast tilkynnið mætingu í Hátíðarsal hér

VÖRNINNI VERÐUR EINNIG STREYMT HÉR

Ritgerðin var unnin undir leiðsögn Dr. Markus Meckl, prófessors við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Auk hans voru í Doktorsnefnd Þóroddur Bjarnason, prófessor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands, og Yvonne Höller, prófessor við Sálfræðideild Háskólans á Akureyri.

Andmælendur eru Erika Hayfield, dósent í félagsvísindum við Sögu- og félagsvísindasvið Fróðskaparseturs Færeyja, og Þórólfur Þórlindsson, prófessor emeritus við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands.

Dr. Guðrún Rósa Þórsteinsdóttir, forstöðumaður Miðstöðvar doktorsnáms, og Birgir Guðmundsson, settur forseti Hug- og félagsvísindasviðs, stýra athöfninni.

Um doktorsefnið

Lara Wilhelmine Hoffmann er fædd árið 1990 í Köln í Þýskalandi. Hún lauk stúdentsprófi frá Hölderlin-Gymnasium í Köln árið 2010, B.A.-gráðu í fjölmiðlafræði frá Johannes-Gutenberg háskólanum í Mainz árið 2014, diplómunámi í íslensku sem öðru máli frá Háskóla Íslands árið 2015 og M.A. í listfræði frá Háskólanum í Amsterdam árið 2017. Lara hóf doktorsnám í félagsfræði við Háskólann á Akureyri árið 2018. Hún tók hluta af doktorsnáminu við Paris-Lodron-University í Salzburg sem Erasmus+ styrkþegi og dvaldi þar við Félagsvísindadeild. Meðfram náminu hefur Lara kennt við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands, Háskólann á Bifröst og Paris-Lodron-University í Salzburg. Hún hefur einnig setið í stjórn Ós Pressunnar, félagssamtaka rithöfunda og skálda sem búa á Íslandi og upplifa sig af einhverjum ástæðum á jaðri hins íslenska bókmenntasamfélags. Auk þess hefur hún setið í stjórn Nordic Summer University og verið virk í ýmsum félagsstörfum tengdum fjölmenningu á Íslandi. 

Doktorsverkefnið var styrkt af Rannís, Háskólanum á Akureyri, Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri og Þróunarsjóði innflytjendamála.

Ágrip

Í doktorsverkefninu eru hliðar á aðlögun innflytjenda á Íslandi rannsakaðar út frá tungumáli, fjölmiðlanotkun og skapandi iðkun. Hefð er fyrir því að rannsóknir sýni aðlögun sem línulegt ferli með áherslu á hlutlægar mælingar. Sjaldnar er athyglinni beint að huglægri skynjun innflytjenda á aðlögun sem gefur innsýn í persónulegt mat og aðstæður þeirra. Þetta doktorsverkefni miðar að því að svara rannsóknarspurningunni: Hvernig upplifa innflytjendur á Íslandi aðlögun?

Tölfræðileg greining á megindlegum gögnum meðal innflytjenda (N=2139) og Íslendinga (N=3395) er sameinuð eigindlegri greiningu á viðtölum (N=15). Auk þess felur ritgerðin í sér krossgreiningu á rannsóknum sem gerðar hafa verið fyrir þessa ritgerð og rannsóknum gerðum af meðhöfundum á Íslandi, samanburðaraðferð sem sameinar rannsóknir gerðar á Íslandi og í Færeyjum af meðhöfundi, og greiningu á listrænum viðburði á Borgarbókasafni í Reykjavík.  

Helstu niðurstöður verkefnisins eru þær að það að upplifa ekki mismun skipti innflytjendurna mestu máli hvað varðaði ánægju þeirra með lífið í viðtökusamfélaginu og að þeir ílengdust þar. Málauðkenning innflytjendanna skipti minna máli, sem er í mótstöðu við hina almennu hugmynd um að tungumálið sé lykillinn að aðlögun. Innflytjendurnir voru almennt hvattir til að læra íslensku, en viðurkenndu einnig takmarkanir á aðlögun að tungumálinu með tilliti til ríkjandi viðhorfa til tungumála auk skorts á gæðum og aðgengi að námskeiðum. Rannsóknin sýnir jafnframt að innflytjendur taka þátt í mörgum samfélögum á netinu og utan nets samtímis. Þau sem eru oft í sambandi við upprunalönd sín í gegnum fjölmiðla og samfélagsmiðla tóku sjaldnar þátt í samfélögum augliti til auglitis en oftar á netinu. 

Niðurstöður sýna að aðlögun er mjög háð samhengi og einstaklingsbundinni reynslu sem er bundin væntingum og getu innflytjandans og umgjörðinni sem móttökusamfélagið veitir. Innflytjendur geta frekar upplifað þá tilfinningu að tilheyra og aðlagast mörgum samfélögum samtímis.

Öll velkomin!