409. fundur háskólaráðs

FUNDARGERÐ HÁSKÓLARÁÐS
Fimmtudaginn 19.12.2019 kl. 13.30. Borgir, R262.

Rektor Eyjólfur Guðmundsson setti fund kl. 13:30.

Mættir voru auk hans:

Dagmar Ýr Stefánsdóttir fulltrúi menntamálaráðherra 

      Katrín Björg Ríkarðsdóttir fulltrúi háskólaráðs

      Kristján Þór Magnússon fulltrúi háskólaráðs

      Óskar Þór Vilhjálmsson fulltrúi háskólasamfélagsins

      Sigfríður Inga Karlsdóttir fulltrúi háskólasamfélagsins

      Sólveig María Árnadóttir fulltrúi nemenda

Aðrir mættir:

Martha Lilja Olsen skrifstofustjóri rektorsskrifstofu ritar fundargerð

Gestir:

Bragi Guðmundsson prófessor, formaður rannsóknamisseranefndar

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu

Rektor kynnti dagskrá. Rektor óskaði eftir að bæta eftirfarandi lið við dagskránna: Ný námsgráða við kennaradeild: Master of Teaching (MT-gráða). Breyting á dagskrá samþykkt.

1. Fjármál og rekstur

Hólmar Svansson framkvæmdastjóri háskólaskrifstofu sat þennan lið fundarins.

Rekstraryfirlit – staðan 2019

Framkvæmdastjóri fór yfir rekstraryfirlit janúar til október. Staðan svipuð og áður og gert ráð fyrir að árinu verði lokað innan marka – en reksturinn er þó mjög erfiður og þarf að gæta aðhalds.

Staða fjárhagsáætlunar 2020

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 verður lokað með því að ganga á afgang síðustu ára. Endurskoðuð fjárhagsáætlun verður send í menntamálaráðuneytið fyrir jól. Það þýðir að gengið er á varasjóðinn og því þarf að gæta enn meira aðhalds en sl. ár og forgangsraða þeim verkefnum sem farið er í. Þetta þýðir að ef ekki er gripið til aðgerða þá gæti skólinn endað í rekstrarhalla og því þarf að nýta vormisserið til að endurskipuleggja fjármál skólans í samræmi við þann ramma sem skólanum er settur af stjórnvöldum. Stefna háskólans verður höfð í forgrunni í allri forgangsröðun. Kristján Þór benti á að stjórnvöld hafa sett fram byggðaáætlun og þar gætu verið tækifæri til sóknar og rökstuðnings fyrir forgangsröðun.

Kjarasamningar

Skrifað hefur verið undir stofnanasamning við félag prófessora.

Rektor lagði áherslu á að ríkið semur við stéttarfélög um miðlægan kjarasamning en stofnanasamningur er á forræði stofnananna. Stjórnvöld fjármagna hins vegar ekki stofnanasamninga. Samningar við FHA eru á lokastigi og vonast er til þess að skrifað verði undir fyrir jól.

2. Innritun og nemendafjöldi 2020

Lagðar verða fram tillögur að nemendafjölda fyrir haustið 2020 í janúar út frá fjárhagsramma.

Hólmar yfirgaf fundinn.

3. Ráðning forseta heilbrigðisvísindasviðs 2020-2021

Rektor lagði fram tillögu um endurráðningu Eydísar Kr. Sveinbjarnardóttur sem forseta heilbrigðisvísindasviðs HA næstu 4 árin. Tillagan hefur verið samþykkt af deildafundi heilbrigðisvísindasviðs, sem hefur einnig lagt fram sína umsögn. Háskólaráð hefur engar athugasemdir við ferlið og samþykkir að rektor gangi frá endurráðningu.

4. Úthlutun rannsóknamissera 2020-2021

Bragi Guðmundsson prófessor, formaður rannsóknamisseranefndar kom inn á fundinn.

Fyrir liggur tillaga rannsóknamisseranefndar um úthlutun rannsóknamissera skólaárið 2020-2021 ásamt greinargerð frá einum fulltrúa nefndarinnar þar sem ekki var einhugur í nefndinni um niðurstöðuna. Of mörg álitamál eru fyrir hendi til þess að hægt sé að taka ákvörðun um úthlutun nú. Málinu er frestað til janúarfundar en fram að því mun rektor funda áfram með formanni rannsóknamisseranefndarinnar og vinna tillögu að lausn ásamt því að setja í farveg endurskoðun á reglum um rannsóknamisseri til þess að koma í veg fyrir að hægt sé að túlka skilyrðin með mismunandi hætti.

Óskar Þór Vilhjálmsson og Sigfríður Inga Karlsdóttir, fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði lögðu fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði mótmæla túlkun núverandi rannsóknamisseranefndar á a- lið 1. gr. reglna um rannsóknamisseri, þ.e. að ekki séu talin með þau misseri sem líða frá því að kennari sækir um rannsóknamisseri né heldur þau misseri sem hann er í rannsóknamisseri þegar réttur kennara til að tækja um rannsóknamisseri að nýju er metinn. Þessi túlkun er í andstöðu við þá túlkun sem hingað til hefur verið á þessum lið reglna um rannsóknamisseri kennara við HA. Einnig viljum við vekja sérstaka athygli á því að kennarar við Háskóla Íslands hafa rétt til töku eins rannsóknamisseris á 5 missera fresti, en með þessari túlkun rannsóknamisseranefndar HA gætu allt að 8-9 misseri liðið á milli þess sem kennari við HA ætti rétt á að sækja um rannsóknamisseri.“

5. Bókfærð mál til samþykktar

  • Verklagsreglur um skjalastjórnun
  • Málalykill HA

Samþykkt.

6. Ný námsgráða í kennaradeild: Master of Teaching (MT-gráða)

Fyrir liggur tillaga frá hug- og félagsvísindi um nýja námsgráðu við kennaradeild; Master of Teaching. Um er að ræða kennsluréttindi án meistaraverkefnis, þ.e. nemendur ljúka fleiri námskeiðum í stað lokaverkefnis. Námskráin fyrir námið liggur fyrir en málið er enn til umfjöllunar í menntamálaráðuneytinu. Gæðaráð og framkvæmdastjórn hafa afgreitt málið fyrir sitt leyti og er markmiðið að hægt verði að taka inn í námið í haust með þeim fyrirvara að gráðan verði samþykkt í menntamálaráðuneytinu. Ekki er um nein ný námskeið að ræða og ekki gert ráð fyrir aukafjármagni en svona fyrirkomulag myndi minnka álagið á starfsfólk kennaradeildar sem kemur til vegna mikils fjölda lokaverkefna á meistarastigi. Mikilvægt er að athuga að þessi nýja námsleið verði ekki til fjölgunar á þeim nemendum sem verða samþykktir í meistaranám í kennaradeild þar sem fyrir liggur að hugsanlega þurfi að takmarka inntöku nemenda næsta skólaár. Samþykkt.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15:48.