Reglur um stjórnunar- og aðstöðugjald við HA

NR. 1082/2023

SAMÞYKKTAR Í HÁSKÓLARÁÐI 28.09.2023

vefútgáfa síðast uppfærð 26.10.2023

Prentgerð (pdf)
Sé munur á uppsetningu texta hér að neðan
og í PDF skjali gildir PDF skjalið

1. gr. Innheimta stjórnunar- og aðstöðugjalds

Reglur þessar gilda um styrki frá innlendum og erlendum sjóðum sem heimila stjórnunar- og aðstöðugjald. Háskólinn á Akureyri innheimtir stjórnunar- og aðstöðugjald af öllum styrkjum frá innlendum og erlendum sjóðum sem heimila stjórnunar- og aðstöðugjald. Gjaldinu er ætlað að standa straum af kostnaði sem til fellur vegna viðkomandi verkefnis og er ekki viðurkenndur með öðrum hætti af styrkveitanda nema sem óbeinn kostnaður.
 
Gjaldið er innheimt af öllum styrkjum frá sjóðum sem heimila innheimtu stjórnunar- og aðstöðugjalds og koma til úthlutunar frá og með árinu 2023. Í umsóknum um styrki er skylt að sækja um stjórnunar- og aðstöðugjald þar sem við á.
 
Stjórnunar- og aðstöðugjald verður ekki innheimt af styrkjum úr sjóðum sem gera ekki ráð fyrir að greiða óbeinan kostnað, eða vegna styrkja þar sem ekki er val um að tilgreina óbeinan kostnað.

2. gr. Hlutfall stjórnunar- og aðstöðugjalds og ráðstöfun

Stjórnunar- og aðstöðugjald er að jafnaði 25% á alla styrki frá utanaðkomandi sjóðum, nema reglur sjóðs mæli fyrir um annað. Í þeim tilvikum þar sem leyfilegt er að sækja um greiðslu óbeins kostnaðar án þess að hlutfallið sé tilgreint skal hlutfallið ákveðið í samráði háskólans og hvers rannsóknarhóps hverju sinni.
 
Gjaldinu er ráðstafað með eftirfarandi hætti:
  1. 40% til viðkomandi fræðasviðs.
  2. 50% til sameiginlegra útgjalda háskólans (Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna og Fjármál og greining).
  3. 10% fer í miðlægan pott sem einingar stjórnsýslu og stoðþjónustu, sem verða fyrir verulegum aukakostnaði vegna tiltekins styrks, geta sótt um fjármagn í.
Forseta fræðasviðs er heimilt að verja hluta af því sem rennur til sviðsins til einstakra verkefna, stoðþjónustu eða deilda ef efni standa til.
 
Þegar fleiri en eitt fræðasvið innan HA tengist viðkomandi verkefni skiptist stjórnunar- og aðstöðugjald í sömu hlutföllum og styrknum er skipt á milli aðila nema annað sé tekið fram í sérstöku skriflegu samkomulagi.

3. gr. Kostnaðarliðir

Kostnaðarliðir sem teljast til stjórnunar og aðstöðu geta m.a. verið:
    1. Kostnaður fræðasviðs getur verið ýmiss kostnaður sem ekki er heimilt að nota viðeigandi rannsóknastyrk til.
    2. Kostnaðarliðir sameiginlegra útgjalda háskólans eru í fyrsta lagi til Fjármála og greiningar vegna fjárhagslegrar umsýslu, t.d. bókhald og uppgjör, eftirlit með rekstri verkefna og launamál, ásamt uppbyggingu sérþekkingar innan einingarinnar við fjárhagslega umsýslu rannsóknastyrkja. Hins vegar er gjaldinu ætlað að renna til rannsóknaþjónustu Miðstöðvar doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna, m.a. í aðstoð og ráðgjöf við umsóknir um styrki, utanumhald, eftirlit og eftirfylgni vegna umsókna um styrki og rannsóknaverkefna, aðstoð við samningagerð og uppbyggingu á rannsóknaþjónustu almennt.
    3. Í þriðja lagi er hluta gjaldsins ráðstafað í miðlægan pott sem ætlað er að mæta auknum útgjöldum t.d. er varðar húsnæði, aðstöðu, upplýsingatækni og upplýsingaöryggi, búnað, skjalavörslu, lögfræðiráðgjöf, gæða- og mannauðsmál o.fl.

4. gr. Uppgjör og eftirlit

Fjármál og greining og Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna hafa eftirlit með að bókun og uppgjör rannsóknaverkefna séu í samræmi við reglur þessar.
 
Standa ber skil á upplýsingum til Miðstöðvar doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna um styrki og verkefni sem bera stjórnunar- og aðstöðugjald.

5. gr. Eftirfylgni og endurskoðun

Fjármál og greining og Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna skulu, á fyrstu tveimur árum eftir gildistöku reglna þessara, fylgjast náið með uppgjöri rannsóknaverkefna, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins auk þess að greina kostnað við aðstöðu og stjórnun rannsóknaverkefna og hvar hann fellur til.
 
Reglur þessar skulu endurskoðaðar eigi síðar en fyrir árslok 2025.

6. gr. Lagastoð og gildistaka

Reglur þessar, sem samþykktar voru í háskólaráði Háskólans á Akureyri 28. september 2023, eru settar með stoð í lögum nr. 85/2008 um opinbera háskóla og 55. gr. reglna fyrir Háskólann á Akureyri nr. 694/2022, og öðlast þegar gildi.
 
Háskólanum á Akureyri, 28. september 2023.
Elín Díanna Gunnarsdóttir rektor.