Kristín Þórarinsdóttir

Námsleiðin er ný við HA og jafnframt á landsvísu og er fyrst og fremst hugsuð til að bæta heilbrigðis- og velferðarþjónustu fyrir einstaklinga sem greinst hafa með heilabilun og ráðgjöf til fjölskyldna þeirra. Mikil þörf er á aukinni þjónustu við þennan hóp fólks sem fer ört vaxandi en ráðgjafar í málefnum fólks með heilabilun geta gegnt lykilhlutverki hvað það varðar. Það er sérlega ánægjulegt að hafa fengið að taka þátt í að byggja upp þessa nýju námsleið sem er frábær viðbót við framhaldsnám í heilbrigðisvísindum við háskólann. Megininntak námsins er sérhæfing á sviði heilabilunar með áherslu á persónumiðaða, heildræna og samþætta ráðgjöf og þjónustu við fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra auk ráðgjafar og fræðslu til faghópa, almennings og stofnana.