Fjöldi þeirra nemenda, sem öðlast rétt til náms á vormisseri 1. námsárs í hjúkrunarfræði er ákveðinn af háskólaráði árlega að fengnum tillögum deildarinnar.
Við val á þessum nemendum er beitt eftirfarandi reglum:
- Prófað er í öllum þeim námskeiðum, sem kennd eru á haustmisseri 1. námsárs. Nemendur verða að taka öll prófin á sama námsári og valið fer fram. Ekki er hægt að fá viðurkennd eldri próf.
- Prófað er úr fimm námskeiðum. Vægi þeirra er sem hér segir:
Hjúkrunarfræði I (6 einingar) 20%
Líffærafræði I (4 einingar) 15%
Siðfræði heilbrigðisstétta(6 einingar) 20%
Vinnulag í háskólanámi (6 einingar) 20%
Vefja- og frumulíffræði (8 einingar) 25%
Heildareinkunn úr hverju námskeiði skal reiknuð í heilum og hálfum tölum, frá 0–10. Þær einkunnir eru síðan aðlagaðar ofangreindu vægi. Heildareinkunn í numerus clausus er vegið meðaltal úr einstökum námskeiðum og skal hún gefin upp með tveimur aukastöfum. Þessi einkunn er lögð til grundvallar við niðurröðun nemenda varðandi áframhaldandi nám.
- Skipa skal prófdómara skv. reglum, sem um þá gilda, (sbr. gildandi prófareglur HA) fyrir allar prófgreinar samkeppnisprófsins. Heildareinkunn í námskeiði er gefin í heilum og hálfum tölum og er meðaltal einkunnar kennarans og prófdómarans. Einkunnir kennara og prófdómara skulu gefnar upp með einum aukastaf.
- Að einkunnum kunngerðum, skv. lið 3, fer engin endurskoðun fram á þeim á vegum heilbrigðisvísindasviðs.
- Nemandi sem ekki mætir til prófs vegna veikinda, skal tilkynna forföll áður en próf hefst. Læknisvottorði skal skilað til skrifstofu skólans við fyrstu hentugleika og eigi síðar en fimm dögum eftir að próf var haldið, annars telst hann hafa þreytt prófið. Það sama gildir um nemanda sem ekki mætir til prófs vegna veikinda barns. Ef halda þarf sjúkrapróf skulu þau haldin svo fljótt sem auðið er.
- Þeim nemendum, sem ná prófum í öllum námsgreinum haustmisseris 1. námsárs, er raðað eftir lækkandi meðaleinkunn. Nemandi telst ekki hafa staðist próf nema hann hljóti einkunnina 5 minnst. Ef tveir eða fleiri nemendur eru jafnir í síðasta sæti skulu þeir báðir/allir eiga rétt til setu á vormisseri 1. námsárs.
- Verði niðurstaða úr prófum slík, að ekki nái sá fjöldi nemenda sem háskólaráð hefur ákveðið lágmarkseinkunn í öllum námskeiðum skal brugðist við með eftirfarandi hætti: Nemendum sem ekki náðu lágmarkseinkunn í öllum námskeiðum er raðað eftir lækkandi meðaleinkunn. Sá sem hefur hæsta meðaleinkunn hlýtur fyrsta lausa sætið og síðan koll af kolli eftir lækkandi meðaleinkunn þar til nemendatölunni er náð. Að þessu vali loknu gilda almennar prófareglur háskólans.
- Segi nemandi, sem öðlast hefur rétt til setu á vormisseri 1. námsárs, sæti sínu lausu innan tveggja vikna frá upphafi vormisseris, skal þeim sem hæsta meðaleinkunn hefur meðal brottfallinna nemenda boðið sætið.
- Nemendum sem ekki veljast til náms á vormisseri samkvæmt reglum um fjöldatakmarkanir er ekki heimil frekari skráning í námskeið við heilbrigðisvísindasvið það skólaár.
- Ef það er fyrirsjáanlegt fyrir upphaf prófatímabils samkeppnisprófa að færri nemendur komi til með að þreyta prófin en sú tala sem ákveðin hefur verið að öðlast skuli rétt til náms á vormisseri 1 árs falla reglur þessar sjálfkrafa úr gildi.
Háskólaráði er heimilt í sérstökum tilvikum að veita undanþágur frá reglum þessum.