Heilsulæsi eldri Íslendinga búsetta í heimahúsi og áhrif einstaklings- og umhverfisþátta

Um verkefnið

Rannsóknin skiptist í þrjá hluta sem saman mynda eina heild í doktorsverkefni um heilsulæsi eldra fólks 65 ára og eldra, sem býr í heimahúsi í þéttbýli/dreifbýli á Norðanverðu Íslandi og áhrif einstaklings- og umhverfisþátta.

Í hluta I var markmiðið að þýða 16 atriða Evrópska heilsulæsilistann, Health Literacy Questionnaire (HLS-EU-Q16) yfir á íslensku, staðfæra útgáfuna, kanna próffræðileg atriði og setja fram fyrstu viðmið að heilsulæsi Íslendinga. Listinn var þýddur- bakþýddur, rýndur af sérfræðihópi og ígrunduð samtöl tekin við almenna borgara sem veittu svörun á listann. Í þversniðsrannsókn með slembuðu úrtaki var lokaútgáfa listans ásamt 11 bakgrunsspurningum send á 1200 manns. Með leitandi þáttagreiningu og könnun á áreiðanleika voru próffræðilega eiginleikar listans skoðaðir. Grein birt í BMC-Public Health í janúar 2020.

Í hluta II, var markmiðið að kanna stig heilsulæsi með þýddu útgáfunni af HLS-EU-Q16-IS meðal eldra fólks sem býr heima í þéttbýli/dreifbýli á Norðurlandi, og áhrif ýmissa einstaklings- og umhverfisþátta, sem liður í rannsókninni ”Health and well-being in Northern Iceland in community dwelling Icelandic people age ≥ 65 years” (VSN-16-100). Um þversniðsrannsókn var að ræða þar sem úrtakið var 395 manns á Norðurlandi. Gagnaöflun fól í sér m.a. 10 alþjóðlega viðurkennd matstæki, blóðprufur og líkamlegar mælingar ásamt hátt í 50 spurningum um bakgrunn þátttakenda. Grein birt í BMC-Public Health í mars 2022.

Í hluta III, er markmiðið að kanna reynslu eldra fólks sem býr heima í þéttbýli/dreifbýli á Norðurlandi af tækifærum og hindrunum í umhverfinu á heilsulæsi og greina þarfir til að efla upplýsta heilsutengda ákvarðanatöku. Gagna verður aflað með eigindleg viðtöl við 18-21 einstakling sem tóku þátt í hluta II. Rýnt verður í reynslu þeirra af áhrifum umhverfisins sem efla eða hamla heilsulæsi. Gagnaöflun stendur yfir en gera má ráð fyrir að niðurstöður birtist árið 2023.

Heildarniðurstöður þessa doktorsverkefnis munu stuðla að nýrri þekkingu á heilsulæsi á Íslandi svo hægt sé að bera saman stöðuna á alþjóðavísu, greina þætti sem hafa áhrif og setja fram aðgerðaáætlun til að bæta heilsulæsi í takt við þarfir eldra fólks. Íslenska þjóðin eldist og áskorunin er að efla heilsu þessa aldurshóps.

Rannsakendur

  • Sonja Stelly Gústafsdóttir, lektor við Iðjuþjálfunarfræðideild Háskólans á Akureyri og doktorsnemi við Læknadeilda Háskóla Íslands
  • Sólveig Ása Árnadóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.
  • Árún K. Sigurðardóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri.
  • Lena Mårtensson, dósent við Tauga- og lífeðlisfræðideild Háskólans í Gautaborg

Samstarfsaðilar

Birtingar

  • Gustafsdottir, S. S., Sigurdardottir, A. K., Mårtensson, L., og Arnadottir, S. A. (2022). Making Europe health literate: Including older adults in sparsely populated Arctic areas. BMC Public Health 22(511). https://doi.org/10.1186/s12889-022-12935-1
  • Gustafsdottir, S. S., Sigurdardottir, Arnadottir, S. A., Heimisson, G. T. og Mårtensson, L. (2020). Translation and cross-cultural adaptation of the Icelandic version of the European Health Literacy Survey Questionnaire, HLS-EU-Q16. BMC Public Health, 20(61). https://doi.org/10.1186/s12889-020-8162-6

Rannsóknin er styrkt m.a. af Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri, Byggðarannsóknarsjóði, Vísindasjóði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Rannsóknarsjóði Öldrunarráðs Íslands og Vísindasjóði Sjúkrahússins á Akureyri.