Sálræn vanlíðan og vellíðan hjá íþróttamönnum á Norðurlandi eystra

Um verkefnið

North Icelandic Center for Sport and Exercise Research (NICSER) rannsóknarhópurinn var stofnaður árið 2021 með það að meginmarkmiði að stuðla að virkum samskiptum milli íþróttafélaga á Akureyri og nærliggjandi sveitarfélaga og Háskólans á Akureyri. Á meðan það hefur verið gríðarleg aukning á rannsóknum á geðheilsu íþróttamanna og hagnýting á hugarfarsþjálfun á Íslandi, hafa engar rannsóknir verið gerðar sérstaklega sem upplýsa um starfsemi íþróttafélaganna á Norðurlandi eystra.

Rannsóknir hafa sýnt að sértækir íþróttatengdir streituvaldar eins og pressan að standa sig vel, æfa nógu mikið og takast á við meiðsli, geta haft neikvæð áhrif á líðan og frammistöðu afreksíþróttafólks. Hingað til hafa fáar rannsóknir beinst að áhættu- og verndandi þáttum yfir tíma, sem gætu útskýrt ferlin hvernig íþróttatengdir streituvaldar leiða til einstaklingsmunar í andlegri líðan.

Þar með er markmið fyrsta rannsóknaverkefni NICSER að kanna þætti sem geta útskýrt einstaklingsmun í vanlíðan (t.d. einkenni kulnunar, kvíða, þunglyndis) og vellíðan. Sérstaklega er horft á þá sálfræðilegu spáþætti sem fyrri rannsóknir í klínískri sálfræði benda til að grípa megi inn í, svo sem sjálfs-samkennd og endurteknar neikvæðar hugsanir. Þessir sálfræðilegu spáþættir verða sérstaklega skoðaðir í tengslum við íþróttatengda þætti svo sem æfingamagn, meiðsli og liðsumhverfi.

Til að ná markmiðum rannsóknarinnar var sendur út spurningalisti til þátttakenda vorið 2022, í samvinnu við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri (RHA). Úrtakið samanstendur af afreksíþróttafólki í hópíþróttum og samanburðarhópi úr almennu úrtaki á Norðurlandi eystra. Spurningalistinn verður sendur út alls fjórum sinnum á þriggja mánaða fresti.

Niðurstöður rannsóknarinnar munu stuðla að mikilvægum upplýsingum um hvernig afreksíþróttafólk og félög á þessu svæði geta verið betur í stakk búin til að takast á við sálrænar áskoranir. Sértæk markmið eru að:

1. meta einstaklings- og umhverfistengda streituvalda, svo sem meiðsli og liðsumhverfi.
2. meta einkenni kulnunar, kvíða, þunglyndis og vellíðunar.
3. meta einstaklingsbundna áhættu- og verndandi þætti er varða viðbrögð við mótlæti svo sem endurteknar neikvæðar hugsanir og sjálfs-samkennd.
4. greina samvirkni milli streituvalda og einstaklingsbundinna áhættu- og verndandi þátta á einkenni van- og vellíðunar yfir tíma.

Rannsakendur

Stúdentar:

  • Ásgerður Ragnarsdóttir, meistaranemi í heilbrigðisvísindum og Fríða Rún Einarsdóttir, nemi í rannsóknartengdu meistaranámi í sálfræði.

Samstarfsaðilar

  • Ragnar Pétur Ólafsson, prófessor við sálfræðideild Háskóli Íslands
  • Göran Kenttä, Professor, The Swedish School of Sport and Health Sciences
  • Dr. Johanna Belz, German Sport University Cologne
  • Jens Kleinert, Professor, German Sport University Cologne