„Það var ekki erfitt val að koma hingað,“ segir Kristian Guttesen, nýr lektor við Háskólann á Akureyri. Hann mun kenna námskrárfræði og kemur til Akureyrar með víðtækan bakgrunn í bæði tæknigreinum og hugvísindum – og brennandi áhuga á mannkostamenntun.
Ferill sem spannar forritun, heimspeki og ritlist
Kristian byrjaði feril sinn í hugbúnaðarverkfræði í Wales og starfaði sem forritari á Íslandi í nokkur ár, meðal annars hjá sprotafyrirtækjum og í margmiðlun. „Svo söðlaði ég algerlega um,“ rifjar hann upp. „Ég fór úr forritun og yfir í heimspeki við Háskóla Íslands, með ritlist sem aukagrein.“
Árið 2012 lauk hann kennsluréttindum í heimspeki, forritun, tölvunarfræði og ritlist. Eftir það kenndi hann víða – meðal annars siðfræði við Menntaskólann á Egilsstöðum, heimspeki í öllum árgöngum Landakotsskóla, þ.m.t. í leikskóladeild, og síðar við Háskóla Íslands – áður en hann hóf doktorsnám í Birmingham undir handleiðslu Kristjáns Kristjánssonar sem er sérfræðingur í fræðum er lúta að mannkostamenntun.
Ástríða fyrir mannkostamenntun
Áhugi Kristians á mannkostamenntun kviknaði þegar hann starfaði í Garðaskóla með Ingimari Ólafssyni Waage, sem var þá í doktorsnámi í mannkostamenntun út frá myndlist. Kristian fann sína eigin nálgun: að nýta ritlist og heimspeki til að kenna mannkosti, byggt á ljóðalestri og skapandi skrifum.
„Í grunninn er þetta hagnýt siðfræði í skólastofunni,“ útskýrir hann. „Við erum að rækta manneskjur, ekki bara að undirbúa nemendur fyrir próf. Þetta snýst um að byggja upp siðferðilegan áttavita og hvetja ungt fólk til að taka réttar ákvarðanir á réttum tíma – og af góðum ástæðum. Mínar rannsóknir hafa miðað að því að nýta annars vegar bókmenntir og ljóð í mannkostamenntun, samkvæmt forskrift Karenar Elizabeth Bohlin, en hún er bandarískur menntunarfræðingur, og hins vegar heimspekilega samræðu sem leitast við að efla andlegan vöxt – en þar leita ég einkum í smiðju hinnar norsku fræðikonu, Guro Hansen Helskog, og eins kollega hennar frá Svíþjóð, Lizu Haglund. Báðar hafa þær haldið fjölmörg námskeið á Íslandi og hafa, ásamt fleirum, haft gríðarmikil áhrif á iðkun heimspekilegrar samræðu í skólum hér á landi.“
Rannsóknir og samfélagsleg tenging
Kristian hefur einnig tekið þátt í alþjóðlegu samkenndarverkefni, styrkt af Templeton-stofnuninni, sem mælir og hvetur til samkenndar hjá ungmennum í Skotlandi, Chile, á Íslandi og á Ítalíu. Með notkun smáforrits skrá nemendur góðverk sín og fá hvatningu og í rannsókninni er fylgst með breytingum á sjálfsmynd þeirra og viðhorfum.
„Það er áhugavert að sjá hvernig ungt fólk metur eigin góðmennsku,“ segir hann. „Markmiðið er að tengja þetta við kennslu og sýna fram á mælanleg áhrif á samfélagsfærni og jákvæða félagslega hegðun (e. prosocial behaviour).“
Hér má sjá myndband sem samstarfsfólk Kristians við Glasgow-háskóla bjó til og veitir góða innsýn í samkenndarverkefnið.
Spennandi tækifæri við HA
Kristian segist vera sérstaklega spenntur fyrir því hvernig háskólinn vinnur að stefnumótun í tengslum við gervigreind. „Það er mikilvægt að gervigreind verði að eðlilegum hluta af skólastarfi og hún skoðuð í víðu samhengi,“ segir hann. „Ekki bara hvernig brugðist er við svindli, heldur hvernig við mótum menntun í heild til að nýta tæknina á ábyrgan hátt.“
Auk þeirrar rannsóknar og kennslu sem áður er getið er margt á döfinni hjá Kristian. „Ég er nýbúinn að sækja ráðstefnuna 2025 Association for Moral Education Annual Conference í Tampere, Finnlandi, þar sem ég kynnti væntanlega bók mína. Bókin Character Development and Poetry as a Method of Moral Education kemur út hjá Cambridge Scholars Publishing í Bretlandi. Einnig hyggst ég rannsaka tengsl gervigreindar við kennslu og menntun tilfinninga. Í þeim efnum eru tvö verkefni á teikniborðinu, annað sem Garðar Ágúst Árnason prófessor leiðir og hitt er afkvæmi Magnúsar Smára Smárasonar, verkefnastjóra í gervigreind við Háskólann á Akureyri og ég hvet lesendur eindregið til að lesa greinar hans um gervigreind á Akureyri.net.“
Að lokum segir Kristian að hann sé þakklátur fyrir að vera kominn norður. „Ég hef sótt um hér áður og á rætur hér – fjölskylda mín býr á Akureyri. Nú er tækifærið loksins komið og ég hlakka til að taka þátt í starfi skólans.“