Frá þekkingu til þróunaráhrifa

Utanríkisráðherra á opnum fundi um sjálfbæra þróun í sjávarútvegi við Háskólann á Akureyri
Frá þekkingu til þróunaráhrifa

Þriðjudaginn 4. febrúar fer fram opinn fundur við Háskólann á Akureyri þar sem sjónum verður beint að alþjóðlegri þróunarsamvinnu og sjálfbærni í sjávarútvegi. Fundurinn er haldinn á vegum GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, Sjávarútvegsskóla GRÓ, utanríkisráðuneytisins og Háskólans á Akureyri, í samstarfi við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands.

Sérþekking Íslands mikilvæg

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra flytur opnunarávarp á fundinum og undirstrikar þar mikilvægi alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands og hlutverk þekkingarmiðlunar í alþjóðlegu samhengi. Einnig mun rektor Háskólans á Akureyri, Áslaug Ásgeirsdóttir, bjóða gesti velkomna.

Fundurinn er annar af fjórum viðburðum og varpar ljósi á þróunaráhrifin af starfi skólanna fjögurra sem starfræktir eru á vegum GRÓ, á sviðum þar sem Ísland býr yfir sérþekkingu. Að þessu sinni verður sérstök áhersla lögð á starfsemi Sjávarútvegsskóla GRÓ og áhrif hans á sjálfbæra þróun í samstarfslöndum.

Á fundinum munu fyrrverandi og núverandi þátttakendur í Sjávarútvegsskóla GRÓ segja frá reynslu sinni af sex mánaða námi á Íslandi og hvernig þeir hafa nýtt þá þekkingu og færni sem þeir öðluðust til að hafa jákvæð áhrif í heimaríkjum sínum. Fjallað verður um vísbendingar um sjálfbæra þróun í sjávarútvegi í samstarfslöndum GRÓ og hvernig markviss menntun, fræðsla og uppbygging færni getur stuðlað að raunverulegum framförum.

Streymi í boði og fólk beðið að skrá sig

Fundurinn fer fram á ensku og verður einnig streymt fyrir þau sem ekki eiga heimangengt. Að honum loknum verður boðið upp á léttar veitingar. Við vekjum athygli á að fundurinn fer fram á ensku.

Öll eru velkomin og nánari upplýsingar, dagskrá og skráningu má finna hér.