Fyrsta Vetrarbrautskráningarathöfnin við Háskólann á Akureyri

Lykilatriði að gefa Íslendingum öllum aðgengi að háskólanámi
Fyrsta Vetrarbrautskráningarathöfnin við Háskólann á Akureyri

Laugardaginn 18. febrúar fór fram fyrsta Vetrarbrautskráningarathöfn Háskólans á Akureyri. Athöfnin var ætluð kandídötum sem fengu brautskráningarpappíra sína í október 2022 og þeim sem brautskrást í febrúar 2023. Samtals eru þetta 72 prófgráður inntar af 71 kandídat af tveimur fræðasviðum.

Háskólinn á Akureyri hefur frá stofnun brautskráð 7.000 kandídata

Í ræðu sinni gerði Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, kandídötum grein fyrir því hversu fljótt þekking úreldist nú á dögum og impraði á mikilvægi endurmenntunar – sérstaklega í ljósi síbylju skoðana sem oftar en ekki eru kynntar sem vísindi: „Þá reynir á að geta greint á milli þess rétta og þess ranga. Sem stúdentar við Háskólann á Akureyri hafið þið, kandídatar góðir, öðlast færni til að greina þarna á milli – nýtið það vel!“.

Á þeim 36 árum sem Háskólinn á Akureyri hefur verið starfræktur hefur hann gefið 7.000 manns tækifæri til menntunar. Eyjólfur sagði Háskólann á Akureyri hafa gegnt lykilhlutverki: „Það eru ekki allir sem átta sig á því hversu gríðarleg breyting það var fyrir Íslendinga alla að eiga fleiri valkosti um nám á Háskólastigi með tilkomu HA. Skólinn hefur því ætíð haft að leiðarljósi að við erum hér til þess að bæta aðgengi allra Íslendinga að háskólanámi og hefur uppbygging fjarnáms, sem nú er orðið að kjarnastarfsemi skólans, verið lykilatriði í því að gefa Íslendingum öllum aðgengi að háskólanámi.“

Hér má lesa ræðu rektors í heild sinni.

Þetta með þægindarammann

Ávarp kandídats var í höndum Önnu Rósu Friðriksdóttur, sem lauk diplómanámi á meistarastigi í starfstengdri leiðsögn frá Kennaradeild. Hún talaði um áskorunina að fara í framhaldsnám eftir farsælan feril í starfi og þörfina á að stíga út fyrir þægindarammann: „Það er skemmtilegt til þess að hugsa að vera þessi sama manneskja. Stelpukjáninn sem sveif í gegnum grunnnámið með svo sterkar skoðanir að kennararnir máttu alveg vara sig. Og á hinn bóginn að vera fullorðin að koma sér út fyrir þægindarammann. Ég var í raun og veru ekki búin að átta mig á því hversu vel ég var búin að koma mér fyrir í þægindarammanum fyrr en ég byrjaði í meistaranáminu haustið 2019. Það að fara í fullt nám eftir langt hlé er heilmikil áskorun sem ég veit að mörg ykkar hljótið að tengja við,“ sagði Anna Rósa í ávarpi sínu.

Tónlistarmaðurinn Svavar Knútur flutti tvö lög og velti fyrir sér myrkum skilaboðum í barnavísum Íslendinga. Því flutti hann Krummi svaf í klettagjá við nýtt frumsamið lag sem gaf ljóðinu allt annan blæ. Síðara lag hans, Janúar, samdi hann til að upphefja þennan annars neikvæða mánuð í huga fólks. „Janúar er svona eins og mánudagar, öllum virðist illa við hann,“ sagði Svavar Knútur.

Viðurkenningar

Viðurkenningu fyrir góðan námsárangur hlutu eftirtaldir:

Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasvið:

  • Grunnnám: Guðbjörg Inga Axelsdóttir, viðskiptafræði BS (hæsta einkunn í grunnnámi við sviðið).
  • Framhaldsnám: Viktoría Björk Erlendsdóttir, framhaldsnám í heilbrigðisvísindum (hæsta einkunn við framhaldsnámið meðal brautskráðra kandídata í október og febrúar).

Hug- og félagsvísindasvið:

  • Grunnnám: Íris Sól Þrastardóttir, sálfræði BA (hæsta meðaleinkunn grunnnema við sviðið).
  • Framhaldsnám: Anna Rósa Friðriksdóttir, starfstengd leiðsögn (hæsta meðaleinkunn meistaranema við sviðið).

Myndir frá athöfn

Hér á Flickr síðu háskólans má nálgast myndir frá athöfninni sem kandídötum er frjálst að nota að vild.

Starfsfólk Háskólans á Akureyri óskar öllum kandídötum hjartanlega til hamingju með brautskráninguna og velfarnaðar í lífi og starfi!