„Hópumræðurnar sérstaklega gagnlegar“

Vel heppnuð Erasmus starfsþróunarvika hjá Símenntun Háskólans á Akureyri
„Hópumræðurnar sérstaklega gagnlegar“

Símenntun Háskólans á Akureyri hélt í október viðburð fyrir starfsfólk erlendra háskóla sem bar nafnið Staff Training Days - Exploring AI in Higher Education. Starfsþróunarvikan tókst einstaklega vel. Alls tóku 18 þátttakendur frá tíu löndum þátt í fjölbreyttri og fræðandi dagskrá þar sem áhersla var lögð á gervigreind, stafrænt kennsluform og alþjóðlegt samstarf.

Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með bæði innihald og skipulag vikunnar, og tóku sérstaklega fram hversu vel tókst að sameina fræðileg viðfangsefni, umræðu og menningarlega upplifun á Norðurlandi.

Skipulag til fyrirmyndar

„Mér fannst hópumræðurnar sérstaklega gagnlegar og hefði viljað hafa þær enn fleiri! Þakkir til Stefáns fyrir frábært gestgjafahlutverk og fyrir skipulagið í heild. Fyrirlestur Magnúsar opnaði nýjar víddir og gaf mér margar nýjar hugmyndir.“ Er haft eftir þátttakenda í vikunni og var almenn ánægja með vikuna. Þátttakendur voru mjög sáttir og nefndu til dæmi gæði fyrirlestra og umræðna, hlýlegt viðmót skipuleggjenda og tækifærið til tengslamyndunar.

Einn af hápunktum vikunnar var ferðalag um Norðurland, þar sem náttúran var í aðalhlutverki enda þátttakendur æstir í að sjá sem mest af Íslandi í heimsókninni. „Að taka þátt í Staff Week við Háskólann á Akureyri var einstaklega gefandi reynsla. Það var áhrifamikið að sjá hvernig landfræðilegar aðstæður í dreifbýlu landi eins og Íslandi ýta undir nýsköpun í stafrænu námi og notkun gervigreindar. Samsetning tæknilegs efnis og menningarlegs samhengis var virkilega eftirminnileg.“

Á meðal fyrirlesara/leiðbeinanda voru Magnús Smári Smárason, verkefnastjóri gervigreindar við Háskólann á Akureyri, sem flutti fræðandi og hvetjandi erindi um notkun gervigreindar í háskólastarfi, og Dr. Auðbjörg Björnsdóttir, sem miðlaði dýrmætri reynslu og hugleiðingum um nýsköpun, samskipti og faglega þróun innan háskólasamfélagsins.

Búið að opna fyrir skráningar

Mikil aðsókn er frá erlendu starfsfólki háskóla að koma í skipulagaðar heimsóknir til HA og var þessi starfsþróunarvika liður í að koma þeim hópum saman sem vilja koma í heimsóknir og bjóða jafnframt upp á skipulagða dagskrá í leiðinni. Vikan var sett upp í góðu samstarfi við Miðstöð alþjóðasamskipta.

Næsta Erasmus starfsþróunarvika við Háskólann á Akureyri fer fram 14. - 17. apríl 2026. Skráning er þegar hafin og aðsóknin mjög góð. Aðeins 35 sæti eru í boði hverju sinni og má ætla að næsta starfsþróunarvika verði þétt setin. Hægt er að sjá frekari upplýsingar hér.