Opið fyrir umsóknir í framhaldsnám í stjórnun á vormisseri. Um er að ræða 100% fjarnám

Tekið er við umsóknum til og með 1. desember
Opið fyrir umsóknir í framhaldsnám í stjórnun á vormisseri. Um er að ræða 100% fjarnám

Viðskiptadeild hefur tekið ákvörðun um að opna fyrir umsóknir nýnema í framhaldsnámi í stjórnun nú um áramótin. Ekki er opið fyrir umsóknir í aðrar námsleiðir á vormisseri.

Tekið er við umsóknum í stjórnun MM og MS í umsóknargátt HA frá 14. nóvember til og með 1. desember.

Eindagi skrásetningargjalds, sem er 55.000 kr., er 10. desember. Umsækjendur fylgjast með stöðu umsóknar í umsóknargátt. Greiðsla skrásetningargjalda fer fram á sama stað sé umsókn samþykkt. Athugið að engir greiðsluseðlar verða sendir út né greiðslukröfur stofnaðar.

Fyrir hverja er framhaldsnám í stjórnun?

Framhaldsnám í stjórnun er ætlað einstaklingum sem vilja efla sig sem stjórnendur og leiðtogar, óháð því hvort þeir gegni slíku hlutverki í dag eða stefni á það í framtíðinni. Námið hentar þeim sem vilja öðlast dýpri skilning á farsælli stjórnun, forystu, samskiptum og öðrum lykilþáttum í nútímalegri stjórnun - svo sem gervigreind, verkefnastjórnun, mannauðsstjórnun, sjálfbærni, nýsköpun, stefnumótun, breytinga- og krísustjórnun.

Ekki er gerð krafa um grunngráðu í viðskiptafræði. „Stúdentahópurinn sem nú þegar stundar námið er fjölbreyttur og hefur að geyma einstaklinga með bakgrunn úr heilbrigðisvísindum, lögfræði, kennaramenntun, sálfræði og fjölmörgum öðrum greinum. Þessi fjölbreytni er einna helsti styrkleiki námsins þar sem stúdentar fá tækifæri til að vinna með fólki með ólíka reynslu og sýn,“ útskýrir Sigurður Ragnarsson, deildarforseti Viðskiptadeildar.


Sigurður Ragnarsson

Námið er skipulagt í styttri lotur til að draga úr álagi

Framhaldsnám í stjórnun er 100% sveigjanlegt fjarnám. Ef stúdentar taka fullt nám tekur það 1,5 ár, en einnig er hægt að dreifa náminu yfir lengri tíma.

„Kennslan fer fram á netinu og byggir á upptökum, umræðutímum með kennara utan hefðbundins vinnutíma og fjölbreyttri verkefnavinnu, bæði einstaklings- og hópaverkefnum. Flest námskeið eru kennd á íslensku en nokkur á ensku,“ segir Sigurður.

Námið er skipulagt í styttri lotur til að draga úr álagi. Flest námskeið standa yfir í 7 vikur en tvö þeirra eru 14 vikur. Heildarfjöldi eininga er 90 ECTS og stúdentar geta valið um að taka námið með eða án lokaritgerðar.

Er framhaldsnám í stjórnun þitt næsta skref?

Viðskiptadeild HA hefur markvisst unnið að því að byggja upp námið og hefur aðsóknin í framhaldsnám í stjórnun verið gríðarlega mikil síðustu tvö ár.

„Við hvetjum alla sem hafa áhuga á stjórnun og forystu til að kynna sér námið vel. Við höfum lagt mikinn metnað í uppbyggingu þess og erum stöðugt að þróa og bæta námið. Námið hentar sérstaklega vel með vinnu og kennarar koma bæði úr röðum fastra kennara og rannsakenda við HA sem og fremstu sérfræðinga á sínu sviði.“

„Markmiðið er að stúdentar eflist og vaxi – og að námið hjálpi þeim að láta drauma sína rætast. Við tökum vel á móti þér í Viðskiptadeild HA,“ segir Sigurður.

Hver er munurinn á MM og MS í stjórnun?

Þau sem velja MM leiðina taka eingöngu námskeið - samtals 90 ECTS og skrifa ekki lokaritgerð. Þau sem velja MS leiðina taka 60 ECTS í námskeiðum og skrifa 30 ECTS lokaritgerð.

Sækja um

Eins og áður hefur komið fram er tekið við umsóknum í umsóknargátt HA frá 15. nóvember til og með 1. desember.

Áhugasöm geta nálgast frekari upplýsingar um námið hér: