Öll þessi Augnablik

Sýningin Öll þessi Augnablik opnar á Bókasafni HA

Sýningin Öll þessi Augnablik opnar fimmtudaginn 2. febrúar kl. 16:00 á Bókasafni HA. 

Verkin á sýningunni eru kyrrmyndir eða augnablik úr myndbandsverkum Örnu Vals. Kyrrur á vegg hafa iðulega verið hluti af myndbandssýningum hennar en eru nú settar í aðalhlutverk í fyrsta sinn. Verkin vann Arna í samvinnu við Prentsmiðjan.is 

Léttar veitingar í boði. 

Opnunartími er mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 8:00 til 16:00 og þriðjudaga og fimmtudaga kl. 08:00 til 18:00. Lokað er um helgar. 

Nánar um Örnu Vals

Arna lauk myndlistarnámi frá Grafíkdeild MHí 1986 og frá Audio/Videodeild Jan van Eyck Academie í Hollandi 1989. Hún hefur lengst af lifað og starfað á Akureyri en sýnt víða bæði hérlendis og erlendis. Verk hennar hafa einkennst af innsetningarverkum þar sem hún vinnur með samspil hreyfimyndar/hljóðs/ og arkitektúrs. Í sumum verkanna nýtir Arna söngrödd sína og fléttar hana inn í sýningarrýmið. Um 1990 fór hún að vinna innsetningarverk þar sem hún staðsetti sjálfa sig í sýningarsalnum og söng fyrir gesti á ákveðnum tíma allan sýningartímann. Þetta þróaðist síðan yfir í verk þar sem hún gerði sönggjörninga í sýningarrýmum og í umhverfi þeirra. Gjörninga þessa tók hún upp á myndband sem hún varpaði síðan inn í sama rými. Í öðrum verkum horfir hún einfaldlega á heiminn. Hreyfingar og mynstur í náttúrunni og í manngerðu umhverfi, ljósbrot og speglun. Á löngum ferli á hún orðið mikið safn af myndbandstökum, bæði fullunnin verk sem hafa verið sýnd, fullunnin verk sem bíða sýningarfæris og ógrynni af videoskissum sem hún hefur safnað á vegferð sinni um tilveruna.

Vefsíða Örnu - Viemosíða Örnu

Öll velkomin!