Fólkið í HA: Andri Dan Traustason

Við tókum tal af Andra Dan Traustasyni, en óhætt er að segja að spennandi tímar séu framundan hjá honum.

Andri Dan Traustason

Við tókum tal af Andra Dan Traustasyni, en óhætt er að segja að spennandi tímar séu framundan hjá honum. Nokkrir dagar eru síðan hann skilaði inn lokaverkefninu sínu og útskriftin fer fram 11. júní. Í haust hefur hann svo framhaldsnám í Skotlandi, í háskóla sem situr í 24. sæti á hinum virta lista Times yfir bestu háskóla í heimi

Getur þú sagt okkur aðeins frá sjálfum þér?

Ég heiti Andri Dan Traustason og er ættaður úr Öxarfirði og Eyjafirði en hef búið á Húsavík lengst af. Þangað er ég nýlega fluttur aftur eftir að hafa búið á Akureyri síðustu þrjú ár, þar sem ég stundaði nám í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Ég brallaði ýmislegt skemmtilegt samhliða náminu og var meðal annars um tíma formaður Reka, félags viðskiptafræðinema. Eftir sumarið stefni ég til Skotlands í mastersnám en þangað til mun ég vinna hjá Íslandsbanka.

Hver er hin hliðin á Andra?

Ferðalög og útivist eru sjálfsagt sú hlið af mér sem mun vera sýnilegust í sumar þar sem ég reyni að ferðast eins mikið og ég mögulega get, innanlands sem utan. Góður matur og drykkir eru aldrei langt undan í þessum ferðum því að ég hef afskaplega gaman af hvoru tveggja, þó að sjálfsögðu í hófi. Þar fyrir utan leika íþróttir stórt hlutverk í rútínunni hjá mér og lengi vel stundaði ég brasilískt jiu jitsu hjá Fenri á Akureyri en varð frá að hverfa vegna meiðsla. Þrátt fyrir það fylgist ég enn vel með bardagaíþróttum og hef mjög gaman af.

Hvers vegna varð viðskiptafræði við HA fyrir valinu á sínum tíma?

Ég hef verið með annan fótinn á Akureyri alla mína tíð og því var Akureyri augljós áfangastaður eftir að ég lauk stúdentsprófi við Framhaldsskólann á Húsavík. Það gerðist þó ekki alveg strax því að ég tók eitt ár í pásu eftir framhaldsskólann til að reyna að átta mig á því hvað ég vildi gera í framtíðinni. Þrátt fyrir þessa pásu, þar sem ég starfaði hjá Norðlenska á Húsavík, var ég litlu nær um hvað ég vildi taka mér fyrir hendur. Viðskiptafræðin varð fyrir valinu vegna þess að hún spannar nokkuð vítt svið og hentaði mér því vel. Ég ályktaði að hún myndi gagnast mér víða og opna margar dyr, þrátt fyrir að ég hefði ekki sérstakan áhuga á viðskiptum þegar ég hóf námið. Áhuginn jókst eftir því sem leið á námið og ég sá betur hvað viðskiptafræðin er áhugaverð. Í dag sé ég aldeilis ekki ef að hafa valið þetta nám.

Lokaverkefnið þitt hefur fengið talsverða athygli, hér heima og erlendis. Segðu okkur frá því.

Í tengslum við lokaverkefnið mitt skrifaði ég tvær greinar í samstarfi við Dr. Hilmar Þór Hilmarsson. Greinarnar og verkefnið í heild sinni fjölluðu um stjórnmálalega áhættu (e. political risk) vegna hugsanlegs sæstrengs milli Íslands og Bretlands sem hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið. Í tengslum við verkefnið flutti ég erindi á málstofu sem viðskiptadeild Háskólans á Akureyri hélt og var nokkuð vel sótt. Að auki hefur Dr. Hilmar kynnt efnið á tveimur alþjóðlegum ráðstefnum og greinarnar voru báðar birtar í erlendum ritum. Þetta var mikil vinna en algjörlega þess virði þar sem ég öðlaðist ómetanlega reynslu í ferlinu. Nánari umfjöllun um verkefnið má finna hér.

Lokaverkefnið hans Andra

Þú ert að fara í mastersnám við University of Edinburgh Business School. Hverskonar nám er um að ræða og hvaða væntingar hefur þú til námsins? 

Gráðan heitir MSc in Banking and Risk og er hluti af fjármáladeild skólans. Náminu er ætlað að undirbúa nema fyrir störf innan banka og annarra fjármálafyrirtækja. Þetta er nokkuð tæknilegt nám sem er jafnframt mjög tengt atvinnulífinu. Þar sem þetta er nokkuð dýrt nám, eins og vaninn er í Bretlandi, ætla ég að reyna að nýta mér það sem allra mest. Þetta er mjög virtur skóli og þeir sem ég hef talað við bera honum mjög vel söguna. Það verður því gaman að sjá hvernig HA er í samanburði en ég geri þó ekki ráð fyrir nokkru öðru en að hann standist hann ljómandi vel.

Hvað hefur þú hugsað þér að gera í framtíðinni með þessa menntun?

Mér finnst líklegt að ég muni reyna að vinna eitthvað úti eftir nám til að afla mér reynslu á þessu sviði.

Ert þú að flytja einn út til Skotlands?

Ég flyt út ásamt kærustunni minni, Brynju Rún, en hún hefur stundað nám við Háskólann á Akureyri síðastliðin þrjú ár og mun brautskrást með B.A. gráðu í sálfræði í júní næstkomandi. Brynja fékk einnig inngöngu í The University of Edinburgh Business School þar sem hún mun leggja stund á mannauðsstjórnun.

Hvað veist þú um Skotland og Skota?

Rigning, rok og djúpsteikt Mars.

Hvað stendur upp úr eftir tíma þinn við HA?

Félagslífið og fjárhagsbókhald.

Voru háskólaárin öðruvísi en þú áttir von á?

Það er mun meiri stuðningur við nemendur en ég átti von á. Allan framhaldsskólann höfðu kennarar brýnt fyrir mér að nemendur þyrftu að standa algjörlega á eigin fótum í háskólanámi svo að utanumhaldið sem nemendur fá í HA kom skemmtilega á óvart. Námið er þó að sjálfsögðu krefjandi, eins og vera ber, en það var mun persónulegra og vinalegra en ég þorði að vona.

Hvað er framundan hjá þér í sumar?

Ég mun starfa sem ráðgjafi hjá Íslandsbanka á Húsavík, þar sem ég hef starfað undanfarin tvö sumur. Það sem er ef til vill mikilvægara er þó að helgarnar munu flestar fara í ferðalög og útilegur, eins og áður segir. Það jafnast fátt á við að skella tjaldvagninum aftaní bílinn og elta góða veðrið allt sumarið. Þá neyðist maður til að kynnast landinu sínu almennilega. Klisjukennt en dagsatt.

Hvers muntu sakna við Háskólann á Akureyri?

Ég mun fyrst og fremst sakna fólksins. Þrátt fyrir að margt sé til fyrirmyndar við skólann er fólkið það eina sem aldrei verður skipt út.

Getur þú gefið nýstúdentum sem hyggjast sækja um nám við Háskólann á Akureyri nokkur ráð?

Blandið geði og kynnist fólki snemma. Það skiptir heilmiklu máli að þekkja þá sem eru með manni í námi, bæði hvað varðar félagslega þætti og námið sjálft.

 

Anna Borg: SjávarútvegsfræðiGuðmundur Örn: LíftækniSvava: IðjuþjálfunÞórhildur Edda: Líftækni

 

Hvern vilt þú sjá næst í Fólkið í HA? Sendu okkur tillögu að viðmælanda.