Fólkið í HA: Anna Borg

Anna Borg Friðjónsdóttir er fyrrum nemi í Verslunarskóla Íslands og flutti til Akureyrar til að læra sjávarútvegsfræði.
Fólkið í HA: Anna Borg

Anna Borg Friðjónsdóttir er fyrrum nemi í Verslunarskóla Íslands og flutti til Akureyrar til að nema sjávarútvegsfræði.

Getur þú sagt okkur aðeins frá sjálfri þér?

Ég er 22 ára úr Kópavogi og útskrifaðist 2014 sem stúdent frá Versló. Eftir útskrift ákvað ég að skoða fyrst heiminn og ferðast. Haustið 2015 tók ég síðan ákvörðun um að flytja til Akureyrar og hefja nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri. Eftir að hafa búið alla mína ævi á höfuðborgasvæðinu þá var þetta skemmtileg tilbreyting og raunar besta ákvörðun lífs míns til þessa.

Hver er hin hliðin á Önnu?

Ég elska að ferðast og reyni að nýta hvert tækifæri sem gefst til að ferðast bæði hér heima og utanlands. Mér finnst mjög gaman að fara á snjóbretti og finnst fátt betra eftir langan lærdómsdag en að fara upp í Hlíðafjall og renna mér nokkrar ferðir til þess að tæma hugann.

Hvers vegna varð sjávarútvegsfræði við HA fyrir valinu?

Hugmyndin kviknaði þegar ég var að vinna á flæðilínunni hjá fiskvinnslufyrirtæki. Þá fór ég að velta því fyrir mér hversu mikilvægur sjávarútvegurinn er í okkar samfélagi. Það eru miklir framtíðarmöguleikar í greininni og við Íslendingar stöndum mjög framarlega á þessu sviði. Því ber að þakka þeirri gríðarlegu nýsköpun og verðmætaaukningu sem hefur orðið í íslenskum sjávarútvegi á síðustu árum.

Anna Borg, nemandi í sjávarútvegsfræði

Hvernig myndir þú lýsa "dæmigerðum" nema í sjávarútvegsfræði?

Ég held að það sé ekki til nein steríótýpa af sjávarútvegsfræðingi. Ég myndi segja að í sjávarútvegsfræðinni sé fjölbreyttur hópur fólks sem kemur alls staðar af landinu og sem deilir sameiginlegum áhuga á sjávarútvegi. 

En jú, þeir sem ekki þekkja til ímynda sér örugglega manneskju í slorgallanum með vonda fiskilykt. En sú er nú sannarlega ekki raunin.

Hvað svo?

Þetta er góð spurning. Það er kostur við sjávarútvegsfræðina hve fjölbreytt hún er og býður upp á marga möguleika að loknu námi. Mig langar í meira nám tengt viðskiptafræði, líklegast alþjóðaviðskipti og markaðssetningu. Hins vegar er alveg eins líklegt að ég taki smá pásu til að vinna og sjái svo í framhaldinu hvað það er sem ég vil sérhæfa mig í.

Hvernig er félagslífið í HA?

Félagslífið er frábært! Ég hefði aldrei getað ímyndað mér það svona skemmtilegt. Maður labbar um ganganna og alltaf mæti ég einhverjum sem ég þekki úr öllum deildum. Bara gaman!

Það er mikil og góð samheldni innan Stafnbúa, sem er félag okkar sjávarútvegsfræðinema. Það er mjög mikilvægt því námið verður svo miklu skemmtilegra í góðum félagsskap.

Hvað kom þér mest á óvart við að flytja til Akureyrar?

Þegar ég ákvað að flytja til Akureyrar hafði ég litlar sem engar væntingar. Ég hafði aldrei búið annars staðar en á höfuðborgasvæðinu og vissi því ekki alveg við hverju ég átti að búast. En ég sé svo sannarlega ekki eftir þessari ákvörðun! Mér líður eins og ég hafi grætt einn klukkutíma í sólarhringnum því ég er ekki föst í umferðarteppu á hverjum morgni. Svo er líka mjög gott að hafa Hlíðarfjall svo nálægt því þá getur maður bara hoppað upp í fjall og rennt sér nokkrar ferðir.

Það er óhætt að segja að lífið hér á Akureyri hafi farið fram úr öllum mínum væntingum.

Anna Borg, nemandi í sjávarútvegsfræði

Hvað hefur þú hugsað þér að gera í framtíðinni með þessa menntun?

Ég vona að með þessari menntun geti ég komið að og lagt mitt af mörkum í þessari miklu framþróun sem hefur orðið í sjávarútvegi á undanförnum árum.

Hvað á að gera í sumar?

Síðasta sumar fékk ég vinnu hjá Iceland Seafood við að selja ferskan fisk til útlanda. Ég stefni á að vinna þar aftur í sumar því það er gaman að fá tækifæri til að vinna við það sem maður er að mennta sig í og þá um leið tengja námið við atvinnulífið.

Getur þú gefið nýstúdentum sem hyggjast sækja um nám við HA nokkur ráð?

Ég var mjög stressuð þegar ég flutti til Akureyrar. Ég hélt að ég myndi ekki kynnast neinum og myndi bara vera alltaf ein heima hjá mér. En það var alls ekki raunin. Ég eignaðist marga mjög góða vini fljótt og við erum þéttur hópur í sjávarútvegsfræðinni en það er einmitt það sem hefur haldið mér á Akureyri síðustu tvö ár, hversu þéttur og samheldinn hópur við erum.

Þannig að eina ráðið mitt er bara DO IT! Ekki hika! Þið munuð ekki sjá eftir því!

Hvers muntu sakna mest frá HA að loknu námi?

Félagslífsins! Aldrei hefði mig grunað að ég ætti eftir eignast svona marga góða vini alls staðar af landinu og því verður erfitt að kveðja HA þegar að því kemur.

 

Andri Dan: ViðskiptafræðiGuðmundur Örn: LíftækniSvava: IðjuþjálfunÞórhildur Edda: Líftækni

 

-Fólkið í HA er unnið í samvinnu við nemendur í fjölmiðlafræði við HA. Ómar Hjalti Sölvason tók viðtalið við Önnu Borg og Auðunn Níelsson tók myndirnar.

Hvern vilt þú sjá næst í Fólkið í HA? Sendu okkur tillögu að viðmælanda.