Fólkið í HA: Guðmundur Örn

Guðmundur Örn flutti til Akureyrar til að læra líftækni við HA.
Fólkið í HA: Guðmundur Örn

Getur þú sagt mér aðeins frá sjálfum þér?

Ég er 25 ára og er úr Kópavogi. Ég hef mikinn áhuga á öllu sem tengist útivist og ferðamennsku en ég hef einnig brennandi áhuga á líftækni. Tveimur árum eftir að ég lauk framhaldsskóla sótti ég um nám í líftækni við Háskólann á Akureyri. Ég tók samt ekki ákvörðun um að hefja námið fyrr en rétt áður en skólinn byrjaði. Ég flutti norður samdægurs og gisti fyrstu dagana á gólfinu hjá félaga mínum á stúdentagörðunum. Við tóku tvö geggjuð ár á Akureyri!

Hver er hin hliðin á Guðmundi?

Ævintýramennska og ljósmyndun. Ég er mikið að ferðast og kanna staði sem fáir þekkja. Ég er líklegast búinn að fara til yfir 25 landa utan Evrópu. Síðast var ég í Nepal með kærustunni minni, sem ég kynntist einmitt í HA. Í þeirri ferð fórum við upp á fjallið Gokyo Ri og eyddum aðfangadegi í 5483 metra hæð. Við komumst á toppinn á aðfangadagsmorgun og áttum svo notalega stund með nepalska leiðsögumanninum okkar og 16 öðrum ferðalöngum við kamínu sem brennir jakuxaskít.

 Guðmundur og Helen, ásamt nepalska leiðsögumanninum sínum á Gokyo Ri

Hvers vegna varð líftækni við HA fyrir valinu á sínum tíma?

Skemmtilegt nám, geggjaður staður og kærkomið frí frá Reykjavík. Þegar stefnan var sett á háskólanám skoðaði ég allt háskólanám á Íslandi og námskeiðin í líftækninni voru þau einu sem mér fannst spennandi. Það sem heillaði mig líka við Akureyri er skíðasvæðið enda var ég alltaf á skíðum. Það er líka svo frábært að geta hagað náminu eins og manni hentar í sveigjanlega náminu. Ég gat stokkið á skíði í geggjuðu veðri og hlustað svo á fyrirlestrana þegar ég kom heim.

Hvernig var að flytja til Akureyrar?

Það var mjög gaman og ótrúlega þægilegt, alger game changer að vera svona stutt frá öllu en samt með allt innan handar. Það er allt á Akureyri sem Reykjavík hefur. Ég fann aldrei fyrir því að ég þyrfti eitthvað meira. 

Ég kom í rauninni einn en skólafélagi minn úr Verzló var hérna og hann reddaði mér fyrstu næturnar á Akureyri. Ég datt svo inn á laust herbergi í íbúð með tveimur öðrum, stelpu frá Reykjavík og strák frá Akureyri. Við náðum ótrúlega vel saman og það var alltaf góð stemning. Við í líftækninni vorum líka alls ekki mörg og það var alltaf góð og þægileg stemning í tímum. Maður náði þá líka að tengja vel við kennarana, sem er mikill kostur í háskólanámi.

Var eitthvað á Akureyri sem kom þér á óvart?

Það kom mér eiginlega ekkert beinlínis á óvart nema þá að ég fékk aldrei leið á Pósthúsbarnum, sem er eiginlega eini skemmtistaðurinn. Líklega vegna þess að það er svo margt fólk alls staðar að í háskólanum. Svolítið eins og að vera í útlöndum. Ég held að það myndist líka svo góð stemning út af því, fólk úr öllum landshlutum í sama pakka, allir að háskólast.

Á skíðum í Hlíðafjalli fyrir ofan Akureyri.

Þú fékkst vinnu tengda náminu fljótlega eftir að þú byrjaðir, hvernig vildi það til?

Ég var búinn að vera að vinna fyrir Alvogen áður en ég byrjaði í HA í alls konar verkefnavinnu sem tengdist ekki endilega náminu. Þegar ég fór svo í námið þá átti það mjög vel við vinnuna og ég er enn þar í dag. En það má eiginlega segja að ég sé að nota allt sem ég lærði á hverju degi í vinnunni í dag. Námið nýttist mér strax og það var mjög ánægjulegt að sjá það. Ég tók síðasta árið mitt sem fjarnemi í Reykjavík og var þá að vinna meira með skólanum.

Hvernig hefur gengið að sameina háskólanám og vinnu?

Mér finnst það ekkert mál. Vinnan er líka þannig. Það er svo mikil snilld að geta tekið námið bæði í staðarnámi og fjarnámi. Ég vil geta haft þetta frelsi og það hefur hentað mér en auðvitað þarf maður að vera skipulagður. Leiðinlegast við það að vera fjarnemi er klárlega að missa af stemningunni sem myndast í prófatíðinni.

Hvað hefur þú hugsað þér að gera í framtíðinni með líftæknimenntun?

Ég hef tekið þá ákvörðun að plana ekki of mikið, ég vil alltaf hafa allar dyr opnar. Möguleikarnir eru endalausir. Ég er kominn með góðan grunn og undirbúinn fyrir hvað sem er. Þetta nám kemur inn á svo margt.

Allir sem læra líftækni eru með á nótunum. Allar umræður um t.d. erfðabreytt matvæli, bólusetningar, mengun og lífhreinsun eru teknar fyrir í náminu og maður getur alltaf tengt við umræðuna hverju sinni. Maður lærir hluti sem er svo gott að vita og getur tekið þátt í umræðunni á vísindalegan hátt.

Námið veitir mér góða menntun og reynslu og ég veit að mér eru allar leiðir opnar. Ef mig langar að ná lengra í líftækninni þá get ég það og lagt allan minn metnað í það. Ég er alla vega með menntunina og reynsluna. Hvort sem það er lyfjaframleiðsla, snyrtivöruframleiðsla eða annað sem tengist líftækni þá er ég með möguleika þangað inn. Það er fullorðinsplanið en ég er ekki alveg kominn þangað, ég vil getað verið í ævintýramennskunni aðeins lengur.

Hvað stendur upp úr eftir tíma þinn við HA?

Það stóð allt upp úr og það er erfitt að nefna eitthvað eitt. Þetta hefur verið frábær tími.

Voru háskólaárin öðruvísi en þú áttir von á?

Ég var ekki með neinar væntingar, mætti bara í nýtt ævintýri. Ég ferðast mikið og vil aldrei vera búinn að mynda mér skoðun eða vera með væntingar um næsta áfangastað. Það var eins með háskólanámið, ég mætti bara og við tók nýtt ævintýri.

Hvað er framundan hjá þér eftir brautskráningu?

Ég ætla að eiga skemmtilegt sumar. Taka smá frí, vinna smá sem leiðsögumaður og undirbúa sumarbústaðarbyggingu með kærustunni minni. Við erum ekki búin að plana næsta ferðalag en okkur langar að fara í skíðaferð til Japan eða í göngu um Patagóníu í Suður-Ameríku.

Guðmundur og Helen

Getur þú gefið nýstúdentum sem hyggjast sækja um nám við Háskólann á Akureyri nokkur ráð?

Ég hef alltaf sagt við fólk að fara í HA út af því að þar færð þú persónulega þjónustu hvort sem þú ert fjarnemi eða staðarnemi. En ég mæli líka með því að prófa að flytja norður – ef það hentar ekki þá geturðu stundað námið sem fjarnemi.

Annars er ráðið mitt að hafa bara gaman.

Nám við HA

 

Andri Dan: ViðskiptafræðiAnna Borg: SjávarútvegsfræðiSvava: IðjuþjálfunÞórhildur Edda: Líftækni

 

Hvern vilt þú sjá næst í Fólkið í HA? Sendu okkur tillögu að viðmælanda.