Ekki er innritað í námið 2024

Framhaldsnám í fjölmiðla- og boðskiptafræði er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands.

Hvor háskóli býður upp á það besta sem hann hefur fram að færa í faginu. Þér gefst kostur á að móta námið talsvert að eigin vild og vinna sjálfstætt undir leiðsögn sérfræðinga, norðan heiða jafnt sem sunnan.

Einnig er í boði diplómanám sem hentar vel með vinnu:

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á samfélagsmálum?
  • Býrðu yfir hæfni til að stunda rannsóknir?
  • Hefur þú skilning á fjölmiðlum sem fjórða valdi?
  • Blundar í þér löngun til að starfa innan háskólasamfélagsins?
  • Viltu starfa á alþjóðavettvangi?
  • Hefur þú löngun til að fara út í stjórnmál?

Áherslur námsins

Fjölmiðlar, áhrif þeirra og notkun, eru meðal mikilvægustu viðfangsefna félagsvísinda í dag. Í þessu námi er tekist á við þetta viðfangsefni.

Markmiðið er að nemendur læri að vinna sjálfstætt að rannsóknum og greiningu. Að kennslunni koma helstu sérfræðingar á sínu sviði frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og úr atvinnulífinu.

Meistaranámið skiptist í fræðilegan grunn með skyldunámskeiðum, bundið og opið val, og meistararitgerð.

Þú getur skoðað skipulag námsins í Uglu, kennsluvef háskólans.

Möguleikar að námi loknu

Að námi loknu bíða tækifæri til rannsókna, greininga eða kennslu á vegum stofnana eða fyrirtækja.

Stjórnunarstörf á fjölmiðlum eða tengdum stofnunum eru möguleiki. Einnig störf hjá alþjóðastofnunum, stjórnmálaflokkum, samtökum og fyrirtækjum sem eiga mikið undir samstarfi við fjölmiðla.

Það er líka hægt að velja störf við greiningu og miðlun upplýsinga svo sem á auglýsinga- og markaðsstofum.

Inntökuskilyrði

Námið er opið nemendum sem hafa lokið grunnnámi við viðurkenndan háskóla. Fyrstu einkunnar er krafist í meistaranámið.

Nemendur með lægri einkunn geta skráð sig í diplómanámið. Nái þeir 1. einkunn í diplómanáminu geta þeir haldið áfram í meistaranámið. Námskeið í diplómanámi eru metin inn í meistaranámið náist tilskilinn árangur (fyrsta einkunn).

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði háskólans.

Umsagnir

Fjölmiðlavæðing samtímans teygir sig inn í alla kima mannlegra samskipta og þekking og skilningur á boðskiptum í öllum sínum myndum hefur aldrei verið mikilvægari en einmitt núna. Nám á framhaldsstigi á þessu sviði er því svar við kalli tímans og gæti til dæmis verið upplagt framhald af grunnnámi í fjölmiðlafræði við HA.

Sigrún Stefánsdóttir
fjölmiðlakona

Meistaranámið var mjög fræðandi og skemmtilegt. Fjölbreytnin var mikil og gaf víða mynd af þeim heimi sem fjöl- og samfélagsmiðlar spanna. Einnig var gefin góð innsýn í störf upplýsingafulltrúa og möguleika sem þar má finna. Að sama skapi bauð námið upp á mikið frelsi í vali á efni til að taka fyrir í meistararitgerð.

Erna Kristín Kristjánsdóttir
kennari