Nám í tölvunarfræði á Austurlandi sem byggt er upp á samstarfi Háskólans á Akureyri, Háskólans í Reykjavík og Austurbrú.

Kennsla fer fram á Reyðarfirði í sveigjanlegu námi. Stúdentar mæta reglulega í hverri viku í verkefnatíma í Fróðleiksmolanum.

Námsefni kemur frá HR. Stúdentar hafa gott aðgengi að kennurunum bæði í HA og HR. Stúdentar eru skráðir í námið við HR og borga skólagjöld samkvæmt gjaldskrá þess skóla.

Á Reyðarfirði er einnig er í boði 2 ára diplómagráða:

  • Diplómagráðan er fyrir þá sem hafa áhuga á tölvunarfræði og vilja auka við þekkingu sína. Hún er einnig fyrir þá sem hafa nú þegar háskólagráðu og vilja bæta við sig BS-gráðu í tölvunarfræði á tveimur árum.

Er námið fyrir þig?

  • Hefur þú áhuga á að búa til tölvuleiki?
  • Vilt þú vinna við þróun á hugbúnaði?
  • Eru stór gagnasöfn og flókin netkerfi málið?
  • Langar þig til að kóða vefsíður?
  • Finnst þér sýndarveruleiki áhugaverður?
  • Er gervigreind heillandi?
  • Kannt þú að beygja orðið tölva? 

Áherslur námsins

Megináhersla er lögð á forritun ásamt fleiri grunnfögum tölvunarfræðinnar. Farið er í hugbúnaðarhönnun, stýrikerfi, netkerfi og gagnasöfn.

Þú getur valið um tvær línur:

  • Almenn tölvunarfræði
  • Tölvunarfræði með viðskiptafræði sem aukagrein. Athugið að viðskiptafræðin er samkvæmt skipulagi HA.

Í náminu er reynt að hafa jafnvægi á milli fræðilegrar undirstöðu og hagnýtrar þekkingar á nýjustu tækni og aðferðum.

Námið er skipulagt sem fullt nám í þrjú ár.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skipulag námsins á vef Háskólans í Reykjavík eða skoðað námslínurnar hér (pdf).

Möguleikar að námi loknu

Nám í tölvunarfræði er góður undirbúningur fyrir þátttöku í atvinnulífinu og traust undirstaða fyrir framhaldsnám bæði hérlendis og erlendis.

Námið opnar möguleika á því að taka þátt í öflugu rannsókna- og nýsköpunarstarfi í samstarfi við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og fyrirtæki.

Tölvunarfræðingar eru eftirsóttir starfskraftar og eiga kost á fjölbreytilegum störfum.

Tölvunarfræði skarast við margar greinar, svo sem stærðfræði, sálfræði, verkfræði, lífupplýsingafræði og viðskiptafræði, svo einhverjar séu nefndar. 

Félagslífið

Félagslíf er mikilvægur þáttur háskólanáms og er félagslíf nemenda við HA öflugt.

Allir stúdentar við háskólann eru í Stúdentafélagi Háskólans á Akureyri (SHA) en einnig er hver deild með sitt nemendafélag. Data er félag tölvunarfræðinema við HA og þú getur nálgast nánari upplýsingar um félagið á Facebook. 

Inntökuskilyrði

Almenn krafa er að umsækjandi hafi lokið stúdentsprófi eða sambærilegu prófi.

Hér getur þú lesið meira um inntökuskilyrði Háskólans í Reykjavík. 

Sveigjanlegt nám

Flestir hefðbundnir fyrirlestrar eru teknir upp og settir á kennsluvef. Þannig getur þú horft á fyrirlestra þegar þér hentar og eins oft og þú vilt.

Helsti kostur sveigjanlega námsins er að þú mætir í verkefnatíma á Reyðarfjörð þar sem verkefnastjóri aðstoðar stúdenta. Þar gefst þér tækifæri til að hitta kennara, samnemendur og annað starfsfólk Fróðleiksmolans og tengjast enn betur námssamfélaginu þínu.

Vinsamlega athugið að hver vika í fullu háskólanámi er ígildi 50-60 stunda vinnuviku. 

Skiptinám

Stúdentar eiga kost á að taka hluta af námi sínu við erlenda samstarfsháskóla. Alþjóðaskrifstofa HR aðstoðar þig við að sækja um námið, húsnæði og nemendastyrk.

Þú getur smellt hér og lesið meira um skiptinám HR. 

Sækja um

Sótt er um námið á vefsíðu HR. Athugið að velja “HA” valkostinn.

Fara á umsóknarvef HR