Háskólahátíð

Háskólahátíð 2017

Háskólahátíð er brautskráningarhátíð Háskólans á Akureyri. Frá árinu 2014 hefur brautskráningin farið fram í Hátíðarsal háskólans og móttökur að henni lokinni fara fram á fræðasviðum víðsvegar um húsið og á Borgum.

Hátíðin sem frá og með brautskráningu 2018 fer fram í tvo daga er um aðra helgi í júní.

Kandídatar

Kandídatar nefnast þeir sem eru að brautskrást með háskólagráðu. Nánar um brautskráninguna og prófskírteini.

Heiðursverðlaun Góðvina

Frá árinu 2004 hafa Góðvinir heiðrað að minnsta kosti einn kandídat af hverju fræðasviði við brautskráningu. Leitað er til starfsmanna sviðsins eftir tilnefningum um nemendur sem hafa sýnt góðan námsárangur og/eða óeigingjarnt starf í þágu háskólans. Þannig er ekki aðeins góður námsárangur verðlaunaður, heldur líka frumkvæði og dugnaður, meðal annars í að kynna háskólann, efla félagslíf nemenda og sitja í hagsmunanefndum fyrir hönd nemenda.

Það er formaður Góðvina hverju sinni sem afhendir verðlaunin í formi nælu úr smiðju Kristínar Petru Guðmundsdóttur, gullsmiðs. Nælan er eftirlíking af listaverkinu Íslandsklukkunni eftir Kristinn Hrafnsson sem stendur á háskólasvæðinu og vísar til þeirrar árvekni sem einkennir gott háskólafólk.

Vefsíða Góðvina

Myndatökur

Að morgni brautskráningardags er kandídötum boðið upp á myndatöku. Myndirnar eru síðan aðgengilegar á netinu.

Heiðursgestur

Háskólinn á Akureyri hefur frá árinu 2014 leitað til þjóðþekktra einstaklinga til að ávarpa kandídata á Háskólahátíð.

Heiðursgestir Háskólahátíðar:

2023 - Herra Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands
2022 - Þórólfur Guðnason, þáverandi sóttvarnalæknir
2021 - Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari
2020 - Helgi Björnsson, söngvari og leikari
2019 - Vilborg Arna Gissurardóttir, ævintýrakona og pólfari
2018 - Sigríður Björk Guðjónsdóttir, þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu
2017 - Eliza Reid, forsetafrú
2016 - Stewart Wheeler, þáverandi sendiherra Kanada
2015 - Frú Vigdís Finnbogadóttir
2014 - Illugi Gunnarsson, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra

Háskólahátíð í tvo daga

Frá og með Háskólahátíð 2018 verða tveir dagar undirlagðir í brautskráningu. Fyrri daginn (föstudag) verða framhaldsnámsnemar brautskráðir en seinni daginn eru það nemar úr grunnnámi auk þeirra sem hafa aflað sér diplómagráðu (til að mynda lögreglufærðinemar sem öðlast starfsréttindi).

Bein útsending

Streymt er frá athöfnum Háskólahátíðar á Facebook síðu háskólans og á YouTube. Fyrri brautskráningar eru aðgengilegar á YouTube rás HA.

Endurfundir

Góðvinir Háskólans á Akureyri efna til endurfunda í kringum Háskólahátíð. Móttaka fer fram að lokinni brautskráningu.