Áhrif sálfræðilegra þátta á frammistöðu í golfi

Um rannsóknina

Í þessari rannsókn er kannað hvort og hvernig tímabundin neikvæð hugsun (e. momentary negative thinking) geti haft áhrif á frammistöðu í golfi meðal íslenskra kylfinga.

Í íþróttum sem krefjast mikillar nákvæmni, eins og í golfi, er einbeiting á verkefnið sjálft grundvallarforsenda árangurs. Rannsóknir benda til þess að neikvætt hugsunarferli sem truflar athygli og einbeitingu geti haft neikvæð áhrif á frammistöðu í íþróttum og öðrum aðstæðum. Þessi tengsl hafa þó ekki verið rannsökuð með tilraunasniði þar sem íþróttaframmistaða er metin með hlutlægum hætti í stjórnuðum og raunhæfum frammistöðuaðstæðum eins og gert er í þessari rannsókn.

Gagnasöfnun lauk í október 2025 en samtals tóku þátt 84 atvinnu-, afreks- og keppniskylfingar með lága forgjöf. Rannsóknin samanstendur af tveimur meginhlutum:

  1. Spurningalistum sem þátttakendur svöruðu heima, þar sem metnir voru sálfræðilegir og hugrænir þættir, svo sem grufl (e. rumination), einkenni þunglyndis og kvíða, og frammistöðukvíði.
  2. Tilraun þar sem kylfingar tóku þátt í einnar klukkustundar frammistöðuprófi í golfhermi við stjórnaðar aðstæður.

Rannsóknin hlaut styrki úr Vísindasjóð Háskólans á Akureyri og Íþróttasjóð RANNIS 

Framkvæmd rannsóknarinnar

Þátttakendum var handahófskennt skipt í tilraunahóp og samanburðarhóp. Í tilraunahópnum voru þátttakendur leiddir í gegnum verkefni þar sem þeir þurftu að bera kennsl á og íhuga nýlegt og persónulega mikilvægt vandamál. Í samanburðarhópnum framkvæmdu þátttakendur hins vegar hlutlaust verkefni sem fólst í því að lýsa daglegum rútínum sínum. Markmiðið er að kanna hvort frammistaða kylfinga í hópi aukinnar tímabundinnar neikvæðrar hugsunar skerðist samanborið við samanburðarhópinn.

Auk frammistöðumælinga var einnig unnið með myndbandsupptökur af rútínum (e. pre-shot routines) til að skoða hvort og hvernig breytingar á hugsunarmynstri endurspegluðust í hegðun og undirbúningi fyrir golfhögg.

Markmið rannsóknarinnar

  • Að kanna hvort og hvernig aukin tímabundin neikvæð hugsun hefur áhrif á frammistöðu í golfi.
  • Að auka skilning á þeim þáttum sem kunna að tengjast breytingum í hugrænum ferlum og frammistöðu í íþróttum.
  • Að stuðla að þróun aðferða og leiða fyrir þjálfara og íþróttafólk til að efla athygli, einbeitingu og stöðugleika í keppni.

Rannsakendur

Stúdentar sem taka þátt í rannsókninni

  • Saga Traustadóttir, MSc í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík
  • Kári Þór Arnason, MSc í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík
  • Silja Fanney Steinsdóttir, BS í sálfræði við Háskólann á Akureyri

Samstarfsaðilar

  • Háskólinn á Akureyri
  • Háskólinn í Reykjavík
  • Johannes Gutenberg Háskólans í Mainz
  • Golfsamband Íslands
  • PGA Ísland

Lokaverkefni