Aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi

Sterkari staða norðurslóðarannsókna á Íslandi

Loftslagsbreytingar hafa valdið því að norðurheimskautið hitnar þrisvar sinnum hraðar en önnur svæði á jörðinni. Þessi þróun mun leiða til umfangsmikilla breytinga og áskorana á næstu árum og áratugum, sem kallar á samstilltar og metnaðarfullar aðgerðir íslenskra stjórnvalda. Ísland hefur einstakt tækifæri til að vera í fararbroddi þessara breytinga og nýta innlenda þekkingu og hugvit til að takast á við áskoranirnar sem loftslagsbreytingar bera í skauti sér. Umtalsverð þekking er til staðar hjá íslenskum háskólum um málefni norðurslóða, en auka þarf samstarf á milli allra háskóla hérlendis svo fullnýta megi þau tækifæri sem eru til staðar og tryggja að íslenskir rannsakendur og sérfræðingar komi þekkingu sinni á framfæri í alþjóðlegu samstarfi.

Um verkefnið

Verkefnið miðar að því að skipuleggja fjórar þematengdar vinnustofur með þátttöku innlendra rannsakenda, annars vegar á Akureyri og hins vegar í Reykjavík. Markmiðið með verkefninu er að styrkja norðurslóðasamsamstarf hérlendis og efla sókn innlendra aðila í alþjóðlega samkeppnissjóði. Með aukinni samvinnu og sameiginlegu átaki mun íslenska rannsóknarsamfélagið geta lagt enn stærra og öflugra framlag til alþjóðlegs vísindasamstarfs og þannig stuðlað að lausnum sem taka mið af sérstökum áskorunum og tækifærum norðurslóða.

Verkefnið er fjármagnað af samstarfssjóði háskóla á vegum Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins.

Þemu vinnustofanna

Lögð verður sérstök áhersla á eftirfarandi viðfangsefni í vinnustofunum:

  1. Aðlögun að loftslagsbreytingum (maí 2025)
  2. Málefni hafsins og alþjóðlegt vísindasamstarf (september 2025)
  3. Umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu á auðlindum (mars 2026)
  4. Orkuskipti og áhrif þeirra á samfélög

Markmið verkefnisins eru að:

  • Auka sýnileika alþjóðlegra styrkjamöguleika á sviði Norðurslóðarannsókna og möguleikum rannsakenda hérlendis til þátttöku í alþjóðlegu vísindasamstarfi með sérstakri áherslu á þematískar áherslur verkefnisin
  • Efla samráð og samstarf rannsakenda á málefnum norðurslóða á Íslandi og stuðla að virkari samskiptum rannsakenda hérlendis á sviði norðurslóða
  • Auka samstarf háskóla á norðurslóðum í rannsóknum og aðgerðum í þágu umhverfisins, til dæmis á vettvangi Háskóla norðurslóða (University of the Arctic) og Alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar.
  • Vinna samantektir frá vinnustofum sem innlegg í rannsóknar og kennsluumhverfið hérlendis.

Fyrri vinnustofur

1. vinnustofa - Aðlögun að loftslagsbreytingum (27. maí 2025)

Fyrsta vinnustofan var haldin á Akureyri með 66 þátttakendum frá öllum íslensku háskólunum og lykilstofnunum á borð við Veðurstofu Íslands, Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Þar var fjallað um aðlögun að loftslagsbreytingum á Íslandi.

2. vinnustofa - Málefni hafsins og alþjóðlegt vísindasamstarf (23. september 2025)

Önnur vinnustofan var haldin í Reykjavík og þar komu saman 50 þátttakendum frá öllum háskólum á Íslandi og lykilstofnunum til fjala um rannóknir og tækifæri á Íslandi í tengslum vð málefni hafsins og alþjóðlegs samstarfs. 

Næstu skref

Vinnustofurnar marka upphaf verkefnisins Norðurslóðarannsóknir á Íslandi, sem hefur það að markmiði að efla samtal og samráð innan rannsóknaumhverfisins hérlendis um málefni norðurslóða.

Frekari upplýsingar um næstu vinnustofu sem fram fer í Reykjavík næsta vor eru væntanlegar.

Samstarfsaðlilar

  • Verkefnið er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, Háskóla Íslands, Norðurslóðanets Íslands og Rannís, í samstarfi við Loftslagsráð.

Nánari upplýsingar

Fyrir frekari upplýsingar, Thomas Barry (tom@unak.is) og Hildur Sólveig Elvarsdóttir (hildursolveig@unak.is).