Breiðhyltingur og bikarmeistari í bekkpressu

Vísindafólkið okkar — Ívar Rafn Jónsson
Breiðhyltingur og bikarmeistari í bekkpressu

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Ívar Rafn Jónsson, lektor við Kennaradeild, er vísindamanneskjan og jólastjarnan í desember.

Ívar Rafn er nýbúi á Akureyri og er enn að uppgötva dásemdir svæðisins sem einmitt býður upp á það tvennt sem hann segir að lyfti andanum, tónlist og góða hreyfingu. „Ég er Breiðhyltingur í húð og hár, fæddur þar og alinn upp. Ég kenndi svo síðar við gamla grunnskólann minn, Ölduselsskóla,“ segir Ívar aðspurður um upprunann.

„Ég fór í sálfræði við Háskóla Íslands og tók einnig hluta af náminu í heimspeki. Áður en ég sneri til æskuslóðanna á vinnumarkaðnum starfaði ég við meðferð barna og unglinga,“ bætir hann við. Árið 2006 lauk Ívar námi í kennsluréttindum og árið 2010 meistaragráðu í kennslufræði. „Svo hélt námið áfram að toga í mig og ég ákvað að fara í doktorsnám árið 2015 sem ég lauk árið 2022.“

Nemendur verða að hafa rödd í sínu námi

„Niðurstöður úr rannsókninni í doktorsnáminu sýndu mér að í framhaldsskólum hér á landi þar sem áhersla var á leiðsagnarnám þreifst persónulegur skólabragur með jákvæðum tengslum milli kennara og nemenda. Ég sá samt líka að menning í kringum próf og einkunnir virtist ýta undir yfirborðskennd í námi. Rannsóknir mínar beinast heilt yfir að námsmati með sérstakri áherslu á leiðsagnarnám, námsmat, endurgjöf og starfsendarannsóknir.“ Segir Ívar aðspurður um rannsóknaráherslur og útskýrir betur hvað hugtakið starfsendarannsókn felur í sér: „Þetta eru rannsóknir sem eru unnar af kennurum í skólum í þeim tilgangi að þróa og bæta eigið starf og skapa nýja þekkingu. Í dag er ég að rannsaka mótsagnirnar sem koma þegar námsmat er skoðað með hliðsjón af inngildingu. Dæmi um slíka mótsögn er hvernig tilraunir til að tryggja jafnræði með stöðluðu námsmati geta unnið gegn markmiðum um að mæta ólíkum þörfum nemenda.“

Hann bætir við að niðurstöður rannsókna hans sýni að það skipti miklu máli að innan skólanna ríki samkomulag um að starfa í anda skýrrar hugmyndafræði: „Til þess að bæði innleiðing leiðsagnarnáms og inngildandi námsmat sé viðhaft þarf nemandinn að hafa eitthvað um námið að segja og að á hann sé raunverulega hlustað.“

Hlutverkaleikir og forhugmyndir

Ívar Rafn kennir meðal annars námskeið um námskrárfræði og hugmyndafræði lærdómssamfélags. „Áhugi minn beinist að því að rannsaka hvernig kennarar læra með og af öðrum að tileinka sér nýja starfshætti, meðal annars í tengslum við leiðsagnarnám. Í því sambandi hef ég sérstakan áhuga á að skoða forhugmyndir kennara og kennaranema. Þegar ég segi forhugmyndir þá á ég við þær hugmyndir sem við höfum þegar við tölum og hugsum um nám og kennslu án þess endilega að hafa hugsað þær gagnrýnið. Þetta eru hugmyndir sem kvikna þegar við setjumst fyrst á skólabekk og verða smám saman sjálfsagður hluti af okkur sjálfum þannig að við hættum að taka eftir þeim. Ég tel þetta vera stærstu áskorunina, því í gegnum sögu Vesturlanda hefur ríkt það viðhorf að skóli sé vettvangur þar sem miðlun „þekkingar“ fer fram og að nemendur læri með því að taka við þekkingunni sem þeir síðan „skila til baka“ í gegnum námsmatið.“

Í kennslu er Ívar duglegur að brjóta upp formið með skapandi nálgunum þar sem farið er út fyrir þægindarammann. „Ég nýti mér stundum hlutverkaleiki, það reynir oft á stúdentana í náminu og þetta uppbrot gefur mér tækifæri til að kynnast nýjum hliðum á stúdentunum og koma hreyfingu á hugsunina,“ segir Ívar um sína kennsluhætti en bætir svo við: „Þetta gefur mér tækifæri til að eiga gefandi samtal við stúdentana.“

Að mati Ívars er mikilvægt að skoða hvernig námsmat getur orðið inngildandi og hvernig það getur stutt við sjálfstæða og skapandi hugsun nemenda: „Rannsóknir á þessu sviði geta nýst til að bæta námsumhverfi og styrkja tengsl nemenda við eigið nám.“

Með bassann í fanginu og kaffið á kantinum

Þegar Ívar er ekki að kenna eða rannsaka finnst honum fátt betra en gott spjall yfir kaffibolla. Hann hefur líka óvenjulega sögu að segja. Árið 1994 tók hann þátt í Músíktilraunum sem bassaleikari undir dulnefni. Hann segir þó sjálfur að það hafi ekki verið vegna þess hversu þekktir þeir voru heldur þvert á móti. Þá á hann bikarmeistaratitil í bekkpressu frá árinu 2005 þó að hann viðurkenni að metnaðurinn í dag liggi á öðrum vettvöngum.

„Mér finnst þó einna best að verja tíma með góðu fólki, vinum og fjölskyldu. Ég nýt þess líka að horfa á góðar myndir og þætti svona til að hvíla hugann, þó að það geti verið tvíeggja sverð. Þá finnst mér gott að eyða tíma í lestur góðra bóka og er spenntur að sjá í hvaða ferðalag Jón Kalman tekur mig þegar ég gef mér tíma til að lesa nýjustu bókina hans, Himintungl yfir heimsins ystu brún,“ segir Ívar að lokum áður en við sjáum á eftir honum með jólatréð undir hendinni enda mikið jólabarn þarna á ferð.

Sjá umfjöllun á Instagram

Heilræði: Ekki taka þig of alvarlega