Brynjar Karlsson og Tom Barry hafa hafið störf

Nyir forsetar fræðasviða
Brynjar Karlsson og Tom Barry hafa hafið störf

Nýir fræðasviðsforsetar hafa nú báðir tekið til starfa við Háskólann á Akureyri. Tom Barry hóf formlega störf í gær sem sviðsforseti Hug- og félagsvísindasviðs. Hann er landfræðingur að mennt frá Háskólanum í Cork á Írlandi og lauk doktorsprófi í stjórnarfari og stjórnsýslu umhverfismála frá Háskóla Íslands.

Síðastliðin fimmtán ár hefur Tom starfað sem framkvæmdastjóri Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF) en stofnunin heldur utan um verkefni vinnuhóps Norðurskautsráðsins um verndun lífríkis og líffræðilegs fjölbreytileika á Norðurslóðum. Í starfi framkvæmdastjóra CAFF hefur Tom unnið með vísindafólki frá fjölmörgum háskólum og rannsóknarstofnunum víða um heim.

Starfsreynsla Tom er af innlendum og alþjóðlegum vettvangi og þekkir hann vel til málefna háskóla og opinberrar stjórnsýslu. Hann hefur mikla reynslu af kennslu og fyrirlestrahaldi í háskólaumhverfinu og hefur meðal annars komið að kennslu við Háskólann á Akureyri, Háskólasetur Vestfjarða, University of Limerick á Írlandi og University College of Cork á Írlandi.

„Háskólinn á Akureyri er spennandi starfsvettvangur í stöðugri þróun og ég fagna þeirri áskorun að nýta reynslu mína og þekkingu til góðra verka í starfi forseta Hug- og félagsvísindasviðs. Ég hlakka mikið til að kynnast samstarfsfólki og stúdentum háskólans og hjálpa til við að móta þróun sviðsins ásamt því að styðja við allt það spennandi starf sem unnið er við Hug- og félagsvísindasvið. Ég er sérstaklega ánægður með það að fyrsta verkefnið mitt í nýja hlutverkinu er að vera hluti af Háskólahátíð - brautskráningu kandídata í næstu viku,“ segir Tom.

Brynjar Karlsson tók við starfi sviðsforseta Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs í apríl. Hann lauk doktorsnámi í eðlisfræði árið 1996 frá Université de Francois Rabelais í Frakklandi. Brynjar hefur þekkingu og reynslu af íslensku og alþjóðlegu háskóla- og rannsóknarstarfi og tengjast rannsóknaráherslur hans vettvangi þeirra fræða sem kennd eru á Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviði. Þá hefur hann auk þess gegnt ýmsum stjórnunarstörfum innan háskólasamfélagsins.

„Ég hafði lengi fylgst með úr fjarlægð hvernig Háskólinn á Akureyri hefur öðlast sívaxandi gildi fyrir nærumhverfið og landið allt. Það er því spennandi tækifæri fyrir mig að leggjast á árarnar með því öfluga fólki sem hefur byggt háskólann upp í þá merkilegu mennta- og fræðastofnun sem hann er í dag. Fyrstu mánuðirnir í starfi hafa verið gríðarlega krefjandi en líka mjög skemmtilegir. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að kynnast starfsfólki og stúdentum Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs og því mikla starfi sem þar er unnið. Það er mér tilhlökkunarefni að fá að vinna með þessu öfluga fólki að því að finna og nýta tækifærin til enn frekari sóknar,“ segir Brynjar.