Deildarforsetinn og doktorsneminn sem spilar kleppara af kappi

Vísindafólkið okkar — Sólrún Óladóttir
Deildarforsetinn og doktorsneminn sem spilar kleppara af kappi

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Sólrún Óladóttir, lektor og deildarforseti Iðjuþjálfunarfræðideildar, er vísindamanneskjan í nóvember.

Þegar Sólrún var að alast upp í Eyjafjarðarsveit hafði hún nóg fyrir stafni. Hún kom í heiminn 1975 og sveitin átti greinilega vel við hana eins og hún lýsir sjálf: „Ég elskaði að brasa í sveitinni við alls konar. Ég var mikið á hestbaki, æfði frjálsar íþróttir með Árroðanum og hafði gaman af því að sauma og prjóna föt. Ég veit ekki hvað er mikið gert af því í dag en ég fæðist árið 1975, kannski var það meira tíðarandinn þá.“ Sólrún er greinilega keppnismanneskja þar sem hún keppti ekki bara í frjálsum íþróttum heldur tók hún hasarkeppnir við bróður sinn og vini hans í kleppara þar sem hún tapaði yfirleitt að hennar sögn en bætti það upp þegar hún tók gamnislagi við bróður sinn. „Skólinn sem ég var í, Laugarlandsskóli, var lítill sveitaskóli, ætli við höfum ekki verið um 50 í allt. Þess vegna var mjög gaman að prófa að flytja til Noregs þegar ég var tólf ára þar sem við bjuggum í eitt ár. Svo lá leiðin aftur heim þar sem ég kláraði náttúrufræðibraut í VMA og fór svo í HA haustið 1997 og var í fyrsta árganginum sem innritaðist í iðjuþjálfun,“ segir Sólrún enn frekar frá.

Sótt til að kenna af fyrrum kennurum

„Ég vann í rúm átta ár á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og var alltaf í tengslum við iðjuþjálfunardeildina hjá HA á þeim tíma, kenndi og tók nema en það er ekki fyrr en árið 2009 sem ég tek stöðu við skólann. Mér finnst svona pínu eins og ég hafi meira verið sótt til að kenna í HA af gömlu kennurunum mínum frekar en að ég hafi sótt sjálf um vinnuna, en mér hefur fundist mjög gaman og þroskandi að takast á við alls konar verkefni í vinnunni hér í HA, bæði tengt kennslu og stjórnun.“ Segir Sólrún um leið sína til HA.

Sólrún er í dag líka doktorsnemi í fötlunarfræði við Háskóla Íslands þar sem hennar áherslur snúa að endurhæfingu fólks og hvernig endurhæfingarþjónusta kemur til móts við þarfir þeirra sem þurfa að nota hana. „Í doktorsnáminu mínu hef ég safnað gögnum frá nokkuð stórum hópi fólks sem sækir endurhæfingu á Íslandi bæði með því að leggja fyrir það spurningalista og með viðtölum. Núna er ég að skoða sérstaklega hvernig reynsla mismunandi hópa fólks er af endurhæfingu svo sem kvenna og fólks með geðrænar áskoranir,“ útskýrir Sólrún frekar um námið og hennar rannsóknarsvið.

Hópavinna, verkleg kennsla og umræður betri kennsluaðferðir en einræða

„Í kennslunni er ég mest að fara yfir þjónustu iðjuþjálfa og hvernig er hægt að nota matstæki og hvaða leiðir er hægt að fara til þess að efla fólk til þess að lifa innihaldsríku lífi sem byggir á þeirra styrkleikum,“ segir Sólrún aðspurð um hvað hún kennir og hvernig kennari hún sé. Henni líkar betur að nýta aðferðir í kennslunni sem byggja á hópavinnu, verklegri kennslu og umræðum frekar en að halda ræður og segist sjálf vera lítil ræðukona. „Það er ekki bara í kennslu sem ég vinn með teymi hjá stúdentum heldur finnst mér gaman að vinna í teymum varðandi kennsluna með öðrum kennurum,“ bætir hún við.

„HA er eini skólinn á Íslandi sem kennir iðjuþjálfun og ég sé að það er mikil þörf á rannsóknum innan endurhæfingar. Það þarf að fá meiri þekkingu á þörfum og reynslu ólíkra hópa fólks, en einnig að horfa á kerfið og hvernig hægt sé að hafa meiri samfellu í þjónustunni og að þjónustan sé aðgengilegri og gegnsærri,“ segir Sólrún þegar kemur að rannsóknum á hennar sviði og þörfinni sé horft til framtíðar.

Sólrún hefur helgað sig iðjuþjálfuninni en þegar hún er ekki að kenna þá eldar hún góðan mat, nýtur útivistar og þetta helst allt í faðmi fjölskyldu og vina. Hvort hún grípi í fiðluna sem hún lærði á í uppvextinum til að gleðja fólkið skal ósagt látið en ef hún gerir það þá er hún mjög líklega keppnis þar eins og annars staðar.

Heilræði: Stay soft. Dont let things that have hurt you turn you into a person you are not.

Umfjöllun á Instagram