"Erum vel meðvituð um þá þróun sem er í samfélaginu, en við höfum enn mikið að læra"

Kynvitundarnámskeið í Hjúkrunarfræðideild.

Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri, í samstarfi við Umeå netið og NordPlus, stóð að alþjóðlegu námskeiði fyrir hjúkrunarfræðinema aðra vikuna í apríl. Hjúkrunarfræðinemar og fyrirlesarar frá Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku komu til Akureyrar til að taka þátt og deila sjónarmiðum og reynslu frá sínum löndum. Móttökunefnd tók á móti gestunum á Akureyrarflugvelli og Sigríður Sía Jónsdóttir, deildarforseti hjúkrunarfræðideildar, hóf námskeiðið formlega á fyrsta degi.

Móttökunefndin á Akureyrarflugvelli

Á námskeiðinu var fjallað um mikilvæg og nútímaleg málefni tengd kynvitund og hjúkrun. Fyrirlesarar komu úr ólíkum áttum, bæði fagfólk með sérþekkingu á kynbundnum málefnum og trans einstaklingar ásamt foreldrum þeirra, sem veittu innsýn í persónulega reynslu. Námskeiðið gekk ákaflega vel og leiddi til skapandi og upplýsandi nemendaverkefna sem unnin voru af blönduðum nemendahópum frá þátttökulöndunum.

Jette Mebrouk, alþjóðafulltrúi hjúkrunarfræðideildar, hélt utan um námskeiðið og skipulagningu fyrir hönd háskólans. Hún bendir á að kynvitund sé mál samtímans og að einhverju leyti sé það nú þegar innifalið í menntun hjúkrunarfræðinema. Hún segir enn fremur: „Stúdentar spila lykilhlutverk þegar kemur að menningarbreytingum“, og þetta námskeið sé mikilvægt frumkvæði sem hún telur að stuðli að jákvæðri þróun þegar kemur að betri skilningi á kynvitund í heilbrigðisumhverfi.

Stúdentarnir voru innblásnir af hinum ýmsu fyrirlestrum og veittu líka sjálfir mikla innsýn sem nýttist vel í umræðum. Eitt af þeim efnum sem var rætt á námskeiðinu var málnotkun. Margrét Unnur Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðinemi á öðru ári við HA, sagði: „Með kynhlutlausu orðavali getum við komið í veg fyrir skaða, dregið úr mismunun og gert heilbrigðisstofnanir að stöðum þar sem öllum líður vel; stöðum sem einstaklingar hika ekki við að leita sér hjálpar á.“

Hjúkrunarfræðideildin stefnir að þátttöku í öðru kynvitundarnámskeiði á næsta ári, þar sem stúdentar og kennarar munu hittast að þessu sinni í Noregi.