Fjölbreytileiki, gleði og tengsl við atvinnulífið einkenndu lotu viðskiptadeildar í október
Í þarsíðustu viku var lota hjá Viðskiptadeild og þá gafst stúdentum tækifæri á að hitta kennara, samstúdenta og annað starfsfólk Háskólans. Þannig tengjast þeir betur innbyrðis og í lotum er horfið frá hefðbundinni kennslu, til dæmis með því að bjóða gestum úr atvinnulífinu að vera með innlegg í námskeiðum.
„Við buðum til okkar Sylviu Clothier Rúdolfsdóttur, svæðisstjóra Boozt á Íslandi, og Jóhanni Má Helgasyni, forstöðumanni viðskiptastýringar Wolt á Íslandi, að vera með innlegg í námskeiðunum Þjónustumarkaðsfræði og neytendahegðun. Það var gríðarlega áhugavert fyrir okkur og stúdenta að fá innsýn í markaðsmál þessara tveggja fyrirtækja sem eiga það sameiginlegt að vera tæknifyrirtæki sem eru tiltölulega ný á markaði og koma til móts við breytta hegðun og kröfur um þjónustu frá neytendum,“ segir Hafdís Björg Hjálmarsdóttir, lektor við Viðskiptadeild, sem ásamt Veru Kristínu Kristjánsdóttur, aðjúnkt við sömu deild, skipulögðu heimsóknirnar.
„Þetta er bara byrjunin“
Páll Andrés Alfreðsson er forseti Reka, félags viðskiptafræðinema, og hann segir að það sé óhætt að segja að skólaárið hafi farið vel af stað hjá Reka. „Búið er að halda þrjá vel heppnaða viðburði, nýnemakvöld sem fór einstaklega vel fram með framúrskarandi þátttöku og var mikil gleði í hópnum. Þá sló Sprellmótið í ár öll met með frábærri þátttöku þar sem stúdentar á öllum árum ásamt skiptinemum sameinuðust í ógleymanlegri stemmningu. Þá var skipulagður hittingur í lotunni sem tókst með eindæmum vel og stúdentar í fantastuði tóku þátt í Pub Quiz þar sem veglegir vinningar voru í boði,“ segir Páll Andrés og bætir við: „Þetta er bara byrjunin, næsti viðburður er vísindaferð sem verður 22. nóvember á Akureyri og við hjá Reka erum að skipuleggja einn viðburð í viðbót á þessari önn ásamt því að plana fyrir þá næstu.“
Námssamfélagið styrkt yfir kaffibollanum
Þá skipulögðu Hafdís og Vera einnig heimsóknir frá Sveini Birki Björnssyni, ráðgjafa hjá Íslandsstofu og Davíð Sigurðssyni, vörumerkjastjóra Collab hjá Ölgerðinni, sem ræddu við stúdenta í markaðsfræði á fyrsta ári. Sveinn Birkir sagði frá störfum Íslandsstofu, sýndi niðurstöður kannana og hvernig unnið er með þær upplýsingar í herferðum. Davíð fór yfir markaðssetningu Collab drykkjarins og sagði einnig frá samstarfi við Bríeti söngkonu og áformum um markaðssetningu þessa vörumerkis í Danmörku og Þýskalandi. Líflegar og skemmtilegar umræður sköpuðust og stúdentar voru duglegir að spyrja gestina.
„Þetta er svo gaman og afar gagnlegt fyrir námið í heild. Þá er ekki síðri samvera og spjall yfir kaffibolla með stúdentum og síðasta daginn borðuðum við öll pizzu saman. Þá gafst tími í spjall um námið og óformleg samskipti sem líka skipta máli í námssamfélaginu,“ segir Hafdís. Stúdentar komu alls staðar að af landinu til þess að taka þátt og meðal annars var stúdent sem gerði sér ferð alla leið frá Osló til að vera með og hitta samstúdenta sína.
Fyrir þau sem vilja vera með í Reka og taka þátt í öllum þessum skemmtilegu viðburðum er enn tími til að skrá sig! Hafið samband við sha@sha.is til að ganga til liðs við Reka og taka þátt í öllu sem framundan er.