Bókin Gæði kennslu - námstækifæri fyrir alla nemendur er komin út hjá Háskólaútgáfunni. Ritstjórar bókarinnar eru: Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Hermína Gunnþórsdóttir prófessor við Kennaradeild Háskólans á Akureyri og Rúnar Sigþórsson prófessor emeritus.
Í lýsingu á bókinni má sjá hvernig efniviður hennar er samofinn framþróun í menntun og mannréttindum: „Rétturinn til menntunar er einn af grundvallarþáttum almennra mannréttinda enda er víðast hvar litið á menntun sem leið til heildstæðrar hæfni og farsældar, einstaklinga jafnt sem samfélaga. Til þess að menntun geti orðið slíkt afl þurfa menntakerfi og skólar að geta tekist á við knýjandi viðfangsefni samtímans með gæði kennslu og náms að leiðarljósi og vel menntaða kennara í broddi fylkingar.“
Í bókinni eru 15 kaflar þar sem fjallað er um gæði kennslu og námstækifæri nemenda frá ýmsum hliðum. Rúmlega helmingur bókarinnar er byggður á íslenskum niðurstöðum rannsóknar á gæðum kennslu á Norðurlöndununum – QUINT sem lauk á síðasta ári. Fræðafólk frá Kennaradeild HA tók þátt í QUINT-rannsókninni, ásamt rannsakendum af Menntavísindasviði HÍ, og er meðal höfunda efnis í bókinni auk þess að taka þátt í ritstjórn hennar.
Bókin er sérstaklega skrifuð með starfandi kennara og skólastjórnendur, kennaranema og kennsluráðgjafa í huga. Höfundar hafa að leiðarljósi að sameina fræðileg og hagnýt sjónarhorn á viðfangsefni sín þannig að efnið nýtist í kennaramenntun og við starfsþróun í skólum.
Hér er hægt að nálgast bókina.