Gangi ykkur vel í prófunum

Hagnýt bjargráð og gagnlegar upplýsingar frá NSHA
Gangi ykkur vel í prófunum

Nú fer að líða að lokum misserisins og haustmisserispróf hefjast miðvikudaginn 29. nóvember. Námsmatið við háskólann er fjölbreytt og er misjafnt hvort stúdentar séu að skila lokaverkefnum, taka munnleg próf eða fara í skrifleg próf. Þessi tími í lífi stúdenta getur í senn verið spennandi, krefjandi, kvíðvænlegur og gefandi. Stúdentar upplifa afrakstur eftir vinnu misserisins og þurfa að takast á við það verkefni að koma þekkingu sinni frá sér. Fyrir próf er sérstaklega mikilvægt að huga að góðum undirbúningi. Náms- og starfsráðgjöf (NSHA) hefur tekið saman nokkra punkta sem gott er að hafa í huga.

Persónulegur undirbúningur

  • Jákvæðar hugsanir eru mikilvægar.
  • Uppbyggilegt sjálfstal er nauðsynlegt.
  • Hugið að hreyfingu, slökun, hvíld og góðri næring.
  • Búið ykkur góða lestraraðstöðu í prófatíð.
  • Leitið til samnemenda, jafningjastuðningur getur verið lykilatriði.
  • Verðlaunið ykkur, einhver gulrót að loknu prófi og í lok prófatíðar.

Undirbúningur fyrir prófið sjálft, gott er að fara yfir:

  • Hvað er til prófs og hvert er vægi þess?
  • Hvar og hvenær er prófið og hversu langan tíma tekur það? Eru gögn leyfð?
  • Yfirfara efni. Safna saman því sem er til prófs.
  • Skoða/skima; bækur, kafla, glósur, hugtakakort – lesa það sem nauðsynlegt er.
  • Gera lestaráætlun fyrir alla prófatíðina til að fá yfirsýn.

Námsaðstaða

Mikilvægt er að huga að góðri námsaðstöðu, búið ykkur til hvetjandi og gott vinnurými. Stúdentar HA hafa fjölbreytt aðgengi að hóp- og lesaðstöðu í háskólanum. Þar ber að nefna ný uppfærða lesaðstöðu á bókasafninu með upphækkanlegum borðum og notalegri aðstöðu, Teppið sem er í uppáhaldi hjá mörgum og lesaðstaða á Borgum. Þá hafa stúdentar aðgang að kennslustofum: N201, N202 og L201 en verða að víkja fyrir þrifum og kennslu auk þess sem mikilvægt er að ganga vel um kennslustofurnar og skilja við þær eins og komið var að þeim.

Hvíld - Hreyfing - Hugarró

  • Við Náms- og starfsráðgjöf getur þú sest niður í nuddsæti með teppi og mandarínu.
  • Líkamsræktarsalurinn er opinn alla daga frá kl. 07:00 til miðnættis - þú kemst í ræktina með SnjallDropanum.
  • Jóga er í boði í líkamsrækt skólans fyrir nemendur og starfsfólk á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 11:50.
  • Það er hægt að púsla á bókasafninu í prófatíðinni.
  • Taka göngutúra, um háskólann eða úti.
  • Víða um háskólann er hægt að finna sófa þar sem hægt er að hafa það aðeins notalegt í lærdómnum og jafnvel taka sér kríu.

NSHA minnir stúdenta á að leita til sín ef kvíði eða vanlíðan eykst umfram það sem eðlilegt getur talist. Ef þú þarft hvatningu, stuðning eða aðstoð hikaðu ekki við að hafa samband. Þau eru hér fyrir ykkur!

Gangi ykkur vel!