Sjálfbærnin verðlaunuð

Grænu kennsluverðlaunin 2024
Sjálfbærnin verðlaunuð

Árið 2024 voru Grænu kennsluverðlaunin veitt í fjórða skiptið. Verðlaunin veitir Umhverfisráð Háskólans á Akureyri. Verðlaunin eru veitt kennurum sem hafa tvinnað umhverfisvernd inn í námskeið sín. Audrey Louise Matthews, formaður Umhverfisráðs, afhenti verðlaunin fyrir hönd ráðsins.

„Við lítum á Grænu kennsluverðlaunin sem jákvæða hvatningu til kennara til að tengja sjálfbærni við allt okkar umhverfi. Þetta eru kennarar sem með metnaði sínum ná með sinni vísindalegu sérfræðiþekkingu að tengja næstu kynslóðir við þeirra skuldbindingu við umhverfið,“ segir Audrey.

Tveir kennarar hlutu að þessu sinni verðlaun. Annar þeirra er Antje Neumann, dósent við Lagadeild.

Antje hlýtur kennsluverðlaunin fyrir námskeið í Heimskautarétti. Antje er með doktorsgráðu frá Tilburg háskóla í Hollandi og er í dag búsett á Akureyri. Antje hefur í sínum störfum og rannsóknum lagt áherslu á réttindi frumbyggja á norðurslóðum og náttúruvernd á heimskautasvæðum.

Jón Þorvaldur Heiðarson hlaut einnig verðlaunin. Hann er lektor við Viðskiptadeild og hlaut verðlaunin fyrir kennslu í umhverfis- og orkumálum í námskeiðinu Stjórnun og rekstur sveitarfélaga.

Jón Þorvaldur hefur verið virkur í umræðum og rannsóknum í byggðamálum. Hans helsta sérsvið eru samgöngur, einkum vegsamgöngur en hann hefur einnig verið virkur á sviði grænnar orku og á fleiri sviðum. Jón Þorvaldur er með bakkalárspróf í eðlisfræði og meistarapróf í hagfræði.

Við óskum Antje og Jóni Þorvaldi hjartanlega til hamingju með verðlaunin!