Háskólakennsla og háskólanám

10 eininga skyldunámskeið fyrir kennara Háskólans
Starfsfólk KHA við Íslandsklukkuna
Starfsfólk KHA við Íslandsklukkuna

Á haustmisseri 2025 hefst kennsla í námskeiðinu Háskólakennsla og háskólanám í áttunda sinn við Háskólann á Akureyri. Námskeiðið er hannað sérstaklega fyrir sveigjanlega námsformið sem háskólinn byggir starf sitt á og er ætlað nýjum og starfandi kennurum við skólann. Námskeiðið er liður í faglegri starfsþróun og nauðsynlegur undirbúningur fyrir fastráðningu.

Sérsniðið námskeið að kennsluumhverfi HA

Upphaf námskeiðsins má rekja til fyrirmynda frá öðrum háskólum og hefur síðan verið aðlagað að sérstökum þörfum háskólans. Þar sem sveigjanlega námsumhverfið í háskólanum er ólíkt öðrum er mikilvægt að kennarar læri á möguleikana í því og nái leikni í að nýta það. Námskeiðinu er ekki ætlað að vera sambærilegt öðrum kennslufræðinámskeiðum og sérstaðan nokkuð skýr.

Námskeiðið er kennt árlega og aðeins 12–15 einstaklingar komast að hverju sinni. Öllu nýju akademísku starfsfólki sem ráðið er eftir 2016 ber að ljúka námskeiðinu innan fimm ára eftir að störf hefjast, en einnig hafa mörg sem voru ráðin fyrir þann tíma sótt námskeiðið.

Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð (KHA) heldur utan um námskeiðið og leggur metnað í að aðlaga námskeiðið að þörfum akademísks starfsfólks við HA. Námskeiðið hefur verið kennt á ensku en annars er reynt að sjá til þess að kennsluefni sé í boði á ensku. Þegar lotur og fjarfundir fara fram á íslensku er reynt að veita þýðingu í rauntíma til að mæta þörfum þeirra sem eru að læra tungumálið.

Kennarar í sporum stúdenta

Námskeiðið miðar að því að efla hæfni þátttakenda í að nýta þekkingu á námi og kennslu á háskólastigi markvisst til eigin kennsluþróunar. Fjallað er um lykilhugtök tengd námskrá og í því sambandi sjónum beint að þátttöku og hlutverki háskólakennara í námskrárgerð og námskrárþróun. Rýnt er í háskólakennslu frá sjónarhóli háskólakennarans og háskólanemans. Samhliða fræðilegri rýni eru verkefni námskeiðsins hagnýt og beinast að því að styðja við raunverulega kennslu. Þátttakendur vinna verkefni sem nýtast beint í kennslu, til dæmis ný námsmatstæki eða kennsluupptökur sem rýndar eru af samkennurum.

Námskeiðið endurspeglar fjölbreyttar áskoranir og tækifæri háskólakennara. Verkefnin eru fjölbreytt og er stór hluti námskeiðsins ígrundun eigin kennslu ásamt þróun kennsluhátta. Þá er lagt upp úr því að þátttakendur vinni saman, miðli sín á milli af eigin þekkingu og reynslu enda þátttakendahópurinn uppbyggður af reynslumiklu fólki úr háskólaumhverfinu. Einnig er kennt um kynjafræði og hlutdrægni í kennslu, og þátttakendur taka hlutdrægnispróf til að íhuga eigin viðhorf.

Námskeiðið er hýst í rafrænu námsumsjónarkerfi sem er sama kerfi og notast er við í HA. Þannig fá þátttakendur reynslu af því að vera stúdentar í því kerfi sem þeir nýta til kennslu sjálfir. Einnig er námsformið sveigjanlegt, bæði á stað og í formi fjarsamverustunda. Þátttakendur fá kennsluafslátt á meðan námskeiðið stendur sem gerir þeim kleift að einbeita sér að eigin námskeiðinu og eigin starfsþróun.

„gott að fá tíma til að ræða við samkennara“

Þegar sótt er um þátttöku þurfa umsækjendur að greina frá breytingum sem þeir hyggjast gera á eigin námskeiði. Þeir miðla því síðar í lokaverkefni sínu – erindi á árlegri kennsluráðstefnu KHA undir heitinu ”Hvað er góð háskólakennsla?”. Þetta skapar virkt samfélag kennara sem læra hver af öðrum og stuðla að þróun gæða í kennslu.

Bergljót Þrastardóttir, sem tók þátt í námskeiðinu síðasta vetur segir það gagnlegt að fá að vinna með kennurum þvert á deildir, „það var gott að fá tíma til að ræða við samkennara af öðrum fagsviðum og rýna í forsendur kennsluaðferða og námsmats sem er í stöðugri þróun. Við gátum rætt hvernig við viljum sjá kennslu þróast við háskólann og deilt með hvert öðru þekkingu og leiðum til að nýta í fjarkennslu. Það er mikilvægt því að kenna í skólastofu er ekki það sama og kenna á netinu. Þá þótti mér gott að fá innsýn stúdenta í það að vera í þessu sveigjanlega umhverfi og í kerfunum sem við notum við kennslu.”

Námskeiðið stuðlar ekki einungis því þátttakendur auki kunnáttu sína hvað varðar verkfæri og þekkingu, námskeiðið gefur þeim einnig tækifæri til endurspegla hlutverk sitt sem kennarar í samfélagi í sífelldri þróun. Þannig er Háskólakennsla og háskólanám meira en námskeiðþað er vettvangur fyrir faglega starfsþróun, samfélagsleg tengsl og ígrundun um það sem gerir góða háskólamenntun veruleika.