Háskólinn á Akureyri fær Grænfánann í fimmta skipti

Háskólinn á Akureyri er annar af tveimur íslenskum háskólum sem eru á grænni grein með Landvernd í grænfánaverkefninu sem er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni
Háskólinn á Akureyri fær Grænfánann í fimmta skipti

Grænfáninn er veittur á tveggja ára fresti til þeirra skóla sem taka þátt í skrefunum sjö sem fylgja því að vera grænfánaskóli. Af þeim framhaldsskólum og háskólum á Íslandi sem taka þátt í grænfánaverkefninu er Háskólinn á Akureyri að hljóta fánann í fimmta skipti.

Af því tilefni bjóðum við öll að heimsækja okkur á háskólasvæðið föstudaginn 25. ágúst þegar fáninn verður dreginn að húni og í kjölfarið hringir fulltrúi nýnema skólaárið inn með Íslandsklukkunni. Fulltrúi Landverndar mætir á svæðið, segir nokkur orð og afhendir fánann. Rektor og fulltrúi stúdenta draga svo fánann að húni. Dagskráin hefst við Íslandsklukkuna klukkan 13:00.

Umhverfismál eru stór hluti af stefnu Háskólans á Akureyri og munu fá mikið rými í nýrri stefnu sem er í mótun. Það er mikilvægt að hugsa umhverfismál sem ekki ákveðinn málaflokk heldur að innleiða heildarhugsun, hvort heldur sem er í náminu eða starfseminni í heild.

Háskólinn á Akureyri er með umhverfisstefnu, starfandi Umhverfisráð, flokkun, fimm græn skref, samgöngusamninga bæði við starfsfólk og stúdenta, græn kennsluverðlaun og ritgerðarverðlaun. Allt er þetta gert til að hvetja fólk til að ganga vel um umhverfið í hverju sem er gert. Einnig til að kveikja hugmyndir sem geta stuðlað að framfarabreytingum í þeim áskorunum sem standa frammi fyrir okkur öllum.