Hópur nemenda í grunnnámi frá Belmont háskólanum í Nashville dvaldi nýverið við Háskólann á Akureyri til að fræðast um hlutverk Íslands á norðurslóðum. Nemendurnir tóku þátt í sérstökum fyrirlestri og umræðum þar sem fjallað var um hvernig stjórnvöld samræma aðgerðir á norðurslóðum. Einnig voru rædd áhrif innrásar Rússa í Úkraínu og niðurlagningu á stuðningi við vísindastarf af hálfu Trump-stjórnarinnar.
Tom Barry, sviðsforseti Hug- og félagsvísindasviðs, tók á móti hópnum og segir svona heimsóknir mikilvægan hluta af háskólasamfélaginu. „Það er gagnlegt og fræðandi bæði fyrir þau og okkur að hittast og tala saman. Þannig öðlumst við öll betri skilning á fjölbreyttum sjónarhornum og í leiðinni getum við hér við HA sagt frá okkar áherslum í þeirri miklu vinnu sem fer hér fram varðandi málefni norðurslóða.“
Háskólinn á Akureyri gegnir lykilhlutverki sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi og hýsir meðal annars námsleiðina í Heimskautarétti, sem hefur vakið alþjóðlega athygli. Gestirnir fengu því dýrmæta innsýn í hvernig Ísland og aðrir aðilar vinna saman að stefnumörkun og rannsóknum á svæðinu.