Hlýtur styrk úr COST samstarfsnetinu

Mun starfa á Spáni í tvo mánuði
Hlýtur styrk úr COST samstarfsnetinu

Radek B. Dudziak, meistaranemi í Auðlindadeild Háskólans á Akureyri, hlaut á dögunum styrk úr COST-samstarfsnetinu PurpleGain á vegum Evrópusambandsins. Styrkurinn er til rannsóknadvalar (Short-Term Scientific Mission) og fer Radek því til Spánar í tvo mánuði þar sem hann mun starfa á rannsóknastofu í Centro De Astrobiología í Madrid undir stjórn Dr. Cristina Cid.

Radek fær þannig tækifæri til að taka þátt í þessu stóra samstarfsneti sem snýst um valháð ljóstillífandi purpuragerla (purple bacteria) og notkun þeirra við hreinsun og virðisaukningu skólps og annars úrgangs. Meistaraverkefni Radeks myndar anga af þessu stærra verkefni, en í því vinnur hann að því að finna leiðir til að nýta örverur úr íslenskri náttúru til hreinsunar og niðurbrots á nokkrum algengum plastefnum.