Hringborðsumræður: Gervigreind og gögn um norðurslóðir

Tom og Magnús Smári ræða norðurslóðamál og gervigreind í sendiherrabústað Bretlands.
Hringborðsumræður: Gervigreind og gögn um norðurslóðir

Þann 30. janúar síðastliðinn fór fram hringborðsfundur í sendiherrabústað Bretlands í Reykjavík, undir yfirskriftinni Gervigreind og gögn um norðurslóðir e. AI for Arctic Data. Fundurinn var haldinn í samstarfi við breska sendiráðið, Alan Turing stofnunina og Cyber Institute við Loughborough háskóla, með stuðningi breska utanríkisráðuneytisins.

Framlag Háskólans á Akureyri

Tom Barry, forseti Hug- og félagsvísindasviðs talaði þar um hlutverk vísindanna og Magnús Smári Smárason, verkefnastjóri í gervigreind, lagði sérstaka áherslu á möguleika og áskoranir sem felast í tækninni. Báðir lögðu áherslu á gagnrýna og ábyrga notkun sem var nokkuð samhljóma skoðun allra fundargesta.

Markmið og þátttakendur

Tilgangur fundarins var fyrst og fremst að eiga samtal um aðgengileg gögn um norðurslóðir og ræða um hvort og hvernig gervigreind geti nýst til að vinna úr þeim og efla nýtingu þeirra.
Umræðurnar fóru fram við hringborð í sendiherrabústaðnum þar sem mismunandi efnisþættir voru teknir fyrir í markvissri lotu með stuttum samantektum á milli.

Sérstök áhersla var lögð á:

  • Aðgengi og gæði gagna
  • Gagnrýna nálgun í gagnavinnslu
  • Skilgreiningu hugtaka í tengslum við gervigreind og norðurslóðir
  • Áreiðanleika og réttmæti gagna við stefnumótun og ákvörðunartöku

Niðurstaða og næstu skref

Fundurinn veitti dýrmætan innblástur og var gott tækifæri til að efla tengslanet á sviði gervigreindar og gagnavinnslu á Norðurslóðum. Næstu skref felast í áframhaldandi samstarfi, þróun á ofangreindu verkefni og fleiri sameiginlegum rannsóknarverkefnum ásamt skilvirkari nýtingu gagna og tækni. Það verður gert og áhersla höfð á ábyrg og gagnrýnin vinnubrögð – í þágu sjálfbærni og farsællar þróunar á norðurslóðum.

Þakkir til Bryony Mathew sendiherra

Bryony Mathew, sendiherra Bretlands á Íslandi, átti stóran þátt í að gera þennan viðburð að veruleika með frumkvæði sínu og frábærum móttökum. Við fulltrúar Háskólans á Akureyri, viljum sérstaklega þakka henni fyrir hlýlegt viðmót og framúrskarandi skipulagningu fundarins.