Hugur starfsfólks HA hjá stúdentum og aðstandendum búsettum í Grindavík

Starfsfólk HA sendir Grindvíkingum hlýjar kveðjur og hluttekningu á þessum erfiðu tímum
Hugur starfsfólks HA hjá stúdentum og aðstandendum búsettum í Grindavík

Það verkefni sem íbúar Grindavíkur standa nú frammi fyrir að yfirgefa bæinn sinn í skugga mikilla jarðhræringa og yfirvofandi eldgoss er ekki eitthvað sem vonast var eftir. Aðstæður í dag eru síst betri, í óvissu um hvað gerist og hversu lengi þessi staða verður og hvað muni koma. Starfsfólk HA sendir Grindvíkingum hlýjar kveðjur og hluttekningu á þessum erfiðu tímum.

„Allir geta þurft að leggja á flótta, hvort heldur er vegna stríðsátaka eða náttúruhamfara og í dag þurfa Grindvíkingar að takast á við það síðarnefnda. Við finnum fyrir þessu hér í HA þar sem hátt í fjörutíu stúdentar eru búsettir í Grindavík og finnum við sárt til með þeim svo og öllum íbúum bæjarins. Starfsfólk okkar er að hringja í þá stúdenta og huga að stöðunni hjá þeim sérstaklega. Sveigjanleiki og viðbrögð eru í höndum deilda og lagt er upp með að sýna umburðarlyndi og samhygð,” segir Elín Díanna, starfandi rektor HA.