Hver eru næstu skref eftir samþykkta umsókn?

Samskiptagátt heldur utan um stöðu umsókna og Nýnemadagar tengja
Hver eru næstu skref eftir samþykkta umsókn?

Nú er búið að samþykkja tæplega 1900 umsóknir um skólavist næsta haust. Búið er að svara flestöllum og eiga umsækjendur að geta séð stöðu umsóknar sinnar í samskiptagátt HA. Skólavist er staðfest með því að gera skrásetningargjald í samskiptagáttinni. Greiðslufrestur er 4. júlí og vakin er sérstök athygli á því að ekki eru sendir reikningar í heimabanka.

Það er ljóst að í háskólanum verður mikið líf í haust þar sem nánast í hverri viku er staðlota í einni af átta deildum háskólans og staðnemar í húsinu. Þar að auki eru um 900 stúdentar með lögheimili á Akureyri og nokkur fjöldi þeirra nýtir vel þá góðu aðstöðu sem hér er til náms.

Nýnemadagar 26.-29. ágúst

Í ágúst verða að venju haldnir Nýnemadagar. Móttaka nýnema á Heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísinasviði fer fram þriðjudaginn 26. ágúst og móttaka nýnema á Hug- og félagsvísindasviði fer fram fimmtudaginn 28. ágúst. Nýnemar þurfa þó að kynna sér stundaskrá í Uglu og dagskrá Nýnemadaga vel því í einhverjum tilvikum hefst kennsla áður en formleg móttaka fer fram. Á Nýnemadögum fá nýnemar meðal annars fræðslu um háskólasamfélagið, aðstöðuna, félagslífið og fyrirkomulag náms ásamt því sem fyrstu kennslustundirnar hefjast.

Dagskrá Nýnemadaga er aðgengileg hér

Dagarnir tækifæri til tengslamyndunar

Stór partur af háskólanáminu er samvinna. Mikilvægt er að nýnemar nýti sér dagskrá Nýnemadaga til að koma sér í gírinn og ekki síður til að hitta samnemendur, starfsfólk, kennara og mynda tengsl strax á fyrsta degi. Silja Rún Friðriksdóttir, verkefnastjóri námssamfélags sem kemur að skipulagningu Nýnemadaga segir dagana vera samvinnuverkefni allra, „starfsfólk og stúdentar koma saman til að taka vel á móti nýjum HA-ingum. SHA og aðildarfélög þess taka virkan þátt í því að móta dagskrána og setja punktinn yfir i-ið þegar kemur að félagslífinu. Ég myndi segja að það dýrmætasta við þátttöku á Nýnemadögum sé tækifærið sem þú færð til tengslamyndunar strax í upphafi. Það fer enginn einn í gegn um nám og markmið okkar á Nýnemadögum er meðal annars að auðvelda nýnemum að mynda tengsl.“

Þá verður jafnframt tekið á móti stúdentum á framhaldsstigi í vikunni eftir Nýnemadaga. Móttaka þeirra er skipulögð af fræðasviðum og deildum háskólans.

VIÐ HLÖKKUM TIL AÐ TAKA Á MÓTI ÞÉR Á NÝNEMADÖGUM!