Íþróttaráðstefna haldin í HA 23. september — forsala stendur yfir til og með 15. september
Ráðstefnan, Farsæll ferill: Íþróttaferill í með- og mótbyr, verður haldin í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri, laugardaginn 23. september. Ráðstefnan er haldin í samstarfi við Akureyrarbæ, ÍSÍ og ÍBA en samstaf þeirra við HA hefur verið í gangi í þónokkurn tíma með ýmsum áhugaverðum viðburðum síðustu ár.
„Fyrir rúmu ári stofnuðum við Richard Taehtinen, lektor við Sálfræðideild rannsóknarhóp innan HA um íþróttarannsóknir á Norðurlandi eystra og í kjölfarið spunnust umræður milli félaganna og bæjarins um að gera Akureyri sýnilegra sem heilsueflandi samfélag. Markmiðið er að gera þetta að árlegum viðburði með mismunandi þemum milli ára og koma þannig íþróttabænum Akureyri betur á kortið,“ segir Nanna Ýr Arnardóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild aðspurð um tilkomu ráðstefnunnar.
Í ár er þema ráðstefnunnar á íþróttasálfræðilegum nótum og er tilgangurinn að skapa vettvang fyrir þau sem koma að íþróttum á margvíslegan hátt og ræða viðfangsefni líðandi stundar í íþróttum.
„Íþróttamenn í dag standa frammi fyrir margvíslegum streituþáttum eins og miklu æfingaálagi, kröfu um góða frammistöðu, þrýstingi frá samfélagsmiðlum, meiðslum og efnahagslegu óöryggi. Þetta getur haft neikvæð áhrif á andlega heilsu og frammistöðu íþróttamanna. Þótt mikilvægi andlegrar heilsu sé almennt viðurkennt í okkar samfélagi, hefur andleg heilsa lítið verið skoðuð í tengslum við árangur í íþróttum,“ segir Nanna.
Ráðstefnan er sérstaklega ætluð íþróttafólki, þjálfurum, rannsakendum og fagaðilum innan íþróttahreyfingarinnar, en einnig til dæmis foreldrum, stúdentum og fólki sem oft æfir sjálft íþróttir af miklu kappi og er áhugasamt um mikilvægi andlegrar heilsu íþróttafólks.
Eins og áður sagði fer ráðstefnan fram í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri laugardaginn 23. september og hefst dagskráin kl. 9:00 og stendur til kl. 16:30. Ekki er streymt frá ráðstefnunni og er nauðsynlegt að þátttakendur skrái sig til þátttöku. Ráðstefnugjald er 3.990 kr. í forsölu sem stendur yfir til og með 15. september, eftir það er ráðstefnugjaldið í 4.990 kr.