Orðið nýsköpun er á allra vörum í dag og þó svo að hún hafi alltaf verið til staðar í samfélaginu þá er í dag markvisst unnið að því að styðja við hana og efla. Í upphafi árs var ráðinn verkefnastjóri frumkvöðla nýsköpunar, sem ætlað er að styðja við frumkvöðla í háskólasamfélaginu, tengja við atvinnulíf og halda áfram að efla það mikla starf sem hefur verið til staðar.
„...áhuginn er greinilegur.“
Svava Björk Ólafsdóttir, nýráðinn verkefnastjóri, hefur margra ára reynslu úr vistkerfi nýsköpunar. Hún er með starfsaðstöðu í HA og Drift EA, frumkvöðlasetri á Akureyri, og hefur þegar hafist handa. Staðið var fyrir Nýsköpunarkaffi í síðustu viku þar sem gefinn var kostur á að kynnast nýsköpunarverkefnum sem tengist skólanum og boðið upp á vettvang fyrir spjall. Vel var mætt á viðburðinn, hópurinn kom víðs vegar að úr samfélaginu, starfsfólk skólans, stúdentar, fulltrúar fyrirtækja og almennings.
María Dís Ólafsdóttir, doktorsnemi við skólann og eigandi nýsköpunarfyrirtækisins Nanna Lín, sagði frá starfseminni og sýndi dæmi um afurðir. Markmið Nönnu Línar er að bjóða upp á slitsterkt og umhverfisvænt leður í metravís unnið úr fiskroði. María Dís hefur mikla reynslu úr vistkerfi nýsköpunar, en hún hefur tekið þátt í hröðlum og fengið styrki og segir það dýrmætt að geta verið í doktorsnámi við HA því ekki séu margir möguleikar fyrir nýsköpun á hennar sviði hvað varðar aðstöðu til tilrauna og rannsókna. Hún getur nýtt aðstöðuna sem er á rannsóknarstofum Auðlindadeildar og nýtur góðs af tengingunni við fagfólkið þar. Hún segir einnig mikilvægt skref að fá til starfa verkefnastjóra nýsköpunar: „Að hafa aðila til að leita til sem getur vísað í rétta átt er mjög dýrmætt fyrir frumkvöðlasamfélagið og getur sparað mikinn tíma. Reglulegir opnir hittingar halda manni við efnið og hjálpa við að efla tengslanetið. Það kom mér á óvart hve mörg mættu á Nýsköpunarkaffið og áhuginn er greinilegur.“

Myndir frá Nýsköpunarkaffinu
Svava segir það alveg ljóst að nýsköpun hafi alltaf verið til staðar í skólanum og mörg þróunarverkefni eru til staðar þar sem rannsakendur vinna með fyrirtækjum eða sjálfir að nýsköpun. Um sé að ræða verkefni sem snúa að nýtingu auðlinda, heilbrigðismálum og fleira. Hún segist vera í skýjunum með góða mætingu á Nýsköpunarkaffið sem sýni að áhuginn er mikill, „það kom virkilega ánægjulega á óvart hversu mörg lögðu leið sína til okkar og ég fann fyrir miklum áhuga – bæði áhuga á stöðu nýsköpunarmála innan skólans, tækifærunum sem liggja þar og að fá að heyra frá Maríu Dís um hennar vegferð sem frumkvöðull og doktorsnemi. Ég vona að þetta sé til marks um öflugt nýsköpunarhugarfar aðila innan skólans sem og í samfélaginu og hlakka til að halda áfram að hitta fólk, heyra um hugmyndir og móta leið skólans í nýsköpunarmálum. Ég hlakka til næsta nýsköpunarkaffis og er strax byrjuð að fá ábendingar um áhugaverða frumkvöðla til að kynnast.“
Verkefnastjóri var ráðinn í kjölfarið í vinnu sem Kjartan Sigurðsson, lektor við Viðskiptafræðideild, sinnti við að byggja upp og formfesta stöðu skólans í nýsköpunarumhverfinu. Hann situr í fagráði sem verður nýjum verkefnastjóra innan handar. Verkefnastjórinn tilheyrir Miðstöð doktorsnáms og stjórnsýslu rannsókna svo að tenging verði sem allra best við rannsóknarverkefni og rannsakendur þvert á allan háskólann.
Það eru mörg verkefnin sem liggja á borði nýs verkefnastjóra. Það þarf að skoða möguleika nýrra verkefna, styðja við rannsakendur og stúdenta í að nýta þær leiðir sem fyrir eru í stuðningsumhverfinu, til dæmis styrki og hraðla. Svava er vel að verkinu komin. Hún er annar stofnenda RATA þar sem hún sérhæfir sig meðal annars í vinnustofum, fræðslu, verkefnastýringu og ráðgjöf við hönnun og þróun ferla tengdum nýsköpun og frumkvöðlastarfi. Má þar nefna þróun og verkefnastýringu á Ratsjánni í samstarfi við Íslenska ferðaklasann og þróun og stofnun Norðanáttar með stuðningsumhverfinu á Norðurlandi. Svava var ráðgjafi Norðanáttar við gerð skýrslu um nýsköpun innan Háskólans á Akureyri 2022-2023 og markmið samstarfsins var að aðstoða við mótun stefnu nýsköpunar fyrir HA og koma með umbótatillögur og sá fræjum nýsköpunar meðal starfsfólks og stúdenta.
Svava Björk hefur unnið mikið með einkafyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum við að bæta umgjörð og ferla varðandi stuðning við fyrirtæki og fjárfesta. Þá hefur Svava Björk stýrt og kennt áfangann Nýsköpun og stofnun fyrirtækja við Háskólann í Reykjavík í nokkur ár. Svava er auk þessa stofnandi IceBAN (Iceland Business Angel Network), samtaka englafjárfesta á Íslandi, stofnandi Hugmyndasmiða sem er fræðsluverkefni um nýsköpun fyrir börn og er sjálf englafjárfestir.