Samræðufélagar kærkomin viðbót til að mæta nemendum af erlendum uppruna

Læsisveisla fram undan í HA
Samræðufélagar kærkomin viðbót til að mæta nemendum af erlendum uppruna

Miðstöð skólaþróunar (MSHA) og Kennaradeild hafa undanfarin ár haft forgöngu um námskeið fyrir kennara um kennsluaðferðina og námsefnið Samræðufélagar (e. Talking Parents). Námskeiðið er ætlað nemendum á aldrinum 5 til 12 ára sem þurfa stuðning við að læra íslensku, til dæmis nemendur af erlendum uppruna.

Clare Reed er höfundur verkefnisins og hefur í þrígang komið til Akureyrar og haldið námskeið fyrir kennara á Eyjafjarðarsvæðinu. Í síðustu viku hélt hún svo tvö námskeið, eitt í Reykjavík og eitt í Reykjanesbæ. Í kjölfar þessara námskeiða hefur hópur kennara notað námsefnið með stuðningi frá MSHA í formi reglulegra funda og leiðsagnar. „Það er því smám saman að byggjast upp reynsla af því að nota efnið með íslenskum nemendum. Eitt af því sem kennarar sem hafa notað námsefnið hafa bent á, er að mikill samhljómur er með aðferðum Byrjendalæsis og hve auðvelt er að samþætta aðferðirnar tvær saman sem bæta hvora aðra upp,“ segir Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor við Kennaradeild.

Námsefnið kærkomin viðbót til að mæta betur nemendum af erlendum uppruna

Niðurstöður rannsókna og úttekta er varða nám nemenda af erlendum uppruna hafa á síðustu árum sýnt að mikil þörf er á sérhæfðu námsefni og þekkingu kennara til að mæta þessum nemendahópi betur. Því má segja að námsefnið Samræðufélagar sé kærkomin viðbót. Þá er námsefnið einnig aðgengilegt fyrir eldri nemendur. Í sumar lauk Rúnar Sigþórsson, prófessor emeritus við Kennaradeild, við að þýða námsefnið fyrir nemendur á unglingastigi og í framhaldsskóla. Ritstjórn og staðfæring námsefnisins hefur verið í umsjón starfsfólks á Miðstöð menntunar og skólaþjónustu sem mun verða aðili að útgáfunni. Þá standa vonir til að hægt verði að bjóða kennurum upp á námskeið fyrir eldri nemendur í upphafi næsta árs.

Læsi í brennidepli á föstudag og laugardag

Það má segja að það verði sannkölluð læsisveisla í Háskólanum á Akureyri næstu daga. Næstkomandi föstudag mun MSHA standa fyrir Námstefnu um Byrjendalæsi og geta áhugasöm nálgast dagskrá og nánari upplýsingar hér. Daginn eftir munu svo MSHA ásamt Miðstöð menntunar og skólaþjónustu standa fyrir ráðstefnunni Hvað er að vera læs? þar sem fjallað verður um læsi í víðum skilningi og hvernig huga þarf að öllum þáttum læsis í kennslu, svo sem lesskilningi, ritun, munnlegri og skriflegri tjáningu og miðlun. Hér má nálgast nánari upplýsingar.