Leitað að lífi og líftæknilausnum í íslenskum hraunhellum – Var líf á öðrum plánetum?

Vísindafólk HA leitar að örverum sem hreinsa upp umhverfismengun og munu niðurstöðurnar nýtast við leit að ummerkjum um fornt líf á öðrum plánetum og tunglum
Leitað að lífi og líftæknilausnum í íslenskum hraunhellum – Var líf á öðrum plánetum?

Örverur í hraunhellum eru líklega ekki ofarlega í huga flestra. Rannsóknir vísindafólks við Háskólann á Akureyri sýna þó gjörla hve áhugavert lífríki er þar að finna.

Örverur í hraunhellum hér á landi kalla ekki allt ömmu sína. Þær hafa aðlagast harðneskjulegum aðstæðum og búa því yfir sérlega skilvirkri hæfni til að lifa af í mjög næringarsnauðu umhverfi. Þessir eiginleikar geta reynst verðmætir og notadrjúgir í ýmissi líftækni, ekki síst í þeirri grein líftækninnar sem snýr að lífhreinsun umhverfis við erfiðar aðstæður.

Umhverfi hraunhellanna einstaklega harðneskjulegt

Örveruþekjurnar sem þrífast í hellunum eru að mestu samansettar úr bakteríum sem þrífast í köldu, fágæfu og næringarefnasnauðu umhverfi í algjöru myrkri. Í hraunhellunum getur því engin ljóstillífun átt sér stað, heldur byggir lífríkið þar á efnatillífun sem gefur orku með oxun og afoxun ólífrænna steinda. Þær ná einnig að nýta sér það litla magn af lífrænum næringarefnum sem ná að seytla niður í hellinn með yfirborðsvatni eftir sprungum í hrauninu.

Er líf á öðrum plánetum?

Líf örvera við þær harðneskjulegu aðstæður sem ríkja í hraunhellum hérlendis nýtist einnig til að svara grunnspurningum um lífvænleika framandi umhverfis, svo sem úti í geimnum. Hraunhella er að finna á öðrum plánetum og tunglum en Jörðinni. Það hefur verið bent á að slíkir hellar séu meðal þeirra staða sem líklegast sé að enn megi finna ummerki um fornt líf, hafi það á annað borð þrifist í fyrndinni á plánetum á borð við Mars. Fjarkönnun slíkra hella er ýmsum erfiðleikum bundin, og því mikilvægt að rannsaka til hlítar í sambærilegu umhverfi hér á Jörðu hvernig greina má slík ummerki.

Hellarnir uppspretta góðs samstarfs

Örverurnar hafa ekki bara vakið athygli vísindafólks við HA heldur einnig vísindafólk víðsvegar. Hluti vísindahópsins PELE undir stjórn Joleen Csuka frá Columbia-háskóla í New York var hér á landi í september síðastliðinn. Viðfangsefni hópsins var einmitt að gera fjarkönnun til að undirbúa leit að lífi á öðrum plánetum. Góður hópur fólks tók þátt í vettvangsrannsóknunum; áðurnefndur hópur vísindafólks frá Háskólanum á Akureyri, Náttúrufræðistofnun Íslands, Íslenskum Orkurannsóknum, Háskólanum í Tartu í Eistlandi og Háskólanum í Utrecht í Hollandi. 

Framkvæmdar voru ýmsar mælingar og tekin sýni af örveruþekju í samtals sex hraunhellum á Snæfellsnesi, á Lyngdalsheiði og í Mývatnssveit. Andrés Tryggvi Jakobsson vinnur meistaraverkefni sitt í líftækni við Auðlindadeild í tengslum við þessar rannsóknir.