Löggæsla og samfélagið mikilvægur liður í að byggja upp lögreglufræðisamfélag hér á landi

Ráðstefnan Löggæsla og samfélagið fór fram í sjötta sinn við HA
Löggæsla og samfélagið mikilvægur liður í að byggja upp lögreglufræðisamfélag hér á landi

Sjötta Löggæsla og samfélagið ráðstefnan fór fram dagana 4. og 5. október við Háskólann á Akureyri og lukkaðist mjög vel. Ráðstefnan er vettvangur þar sem fag- og fræðafólk reifar málefni sem tengjast löggæslu með einum eða öðrum hætti. Þema ráðstefnunnar í ár var ofbeldi – í víðri merkingu. Ofbeldi á sér stað þegar einhver neytir aflsmunar til að valda skaða. Birtingarmyndir ofbeldis eru margvíslegar og einskorðast ekki við líkamlegt ofbeldi. Ofbeldi fyrirfinnst alls staðar og hefur alvarlegar afleiðingar. Fyrir vikið er ávallt mikilvægt að auðkenna leiðir til þess að taka á og draga úr ofbeldi.

Ráðstefnan var mjög vel sótt og er sú stærsta hingað til með 64 erindi víðs vegar að úr heiminum. Yfir tvö hundruð ráðstefnugestir mættu á lykilerindi Dr. Lars Roar Frøyland frá Osló Metropolitan-háskólanum á miðvikudagsmorgninum en erindið fjallaði um ofbeldi ungmenna á Norðurlöndunum. Þess má til gamans geta að viðtal við Lars mun birtast í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í vikunni. Annar eins fjöldi mætti á lykilerindi prófessors John Violanti frá Buffalo-háskóla seinna um daginn en erindi hans fjallaði um sjálfsvíg lögreglumanna. Ráðstefnugestir voru hátt í 300 talsins en samhliða ráðstefnunni var bryddað uppá þeirri nýjung að nokkur lögregluembætti voru með kynningu á starfsemi sinni á miðvikudeginum. Góður rómur var gerður að vel sóttum kynningum embættanna, sem þykja góð viðbót sem var haldin samhliða ráðstefnunni. Mikill fjöldi lögreglufræðinema mætti á ráðstefnuna og tók virkan þátt.

Guðmundur Oddsson, prófessor í félagsfræði við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri og einn skipuleggjanda ráðstefnunnar, var afar ánægður við ráðstefnulok. Hann segir ráðstefnuna góðan vettvang fyrir fagfólk og fræðimenn til að reifa málefni sem tengjast löggæslu í víðri merkingu. „Ráðstefnan hefur sannarlega skapað sér nafn hérlendis sem erlendis undanfarin ár. Hún er mikilvægur liður í að byggja upp lögreglufræðisamfélag hér á landi, styðja við frekari fagvæðingu lögreglunnar og auðkenna leiðir til að gera góða löggæslu enn betri,“ segir Guðmundur. Hann vill að lokum koma á framfæri miklu þakklæti til fyrirlesara, ráðstefnugesta og samstarfsfólks sem lætur svona ráðstefnu verða að veruleika.