26. árgangur nemenda útskrifaðist 21. maí
Útskrift 26. árgangs nemenda Sjávarútvegsskóla GRÓ fór fram miðvikudaginn 21. maí í hátíðarsal Hafrannsóknastofnunar í Hafnarfirði. Af þeim voru fimm við Háskólann á Akureyri frá janúar til maí. Starfsfólk HA og Fiskistofu kenndu þeim og leiðbeindu í lokaverkefnum. Rannsóknir þeirra snerust nú öll að fiskveiðum í vötnunum miklu í Afríku. Nemendurnir voru (sjá forsíðumynd frá vinstri til hægri) Ben Kiddu frá Úganda, Funny Mkwiyo frá Malaví, Frank Kabitana frá Tansaníu, Nelly Kerebi frá Kenýa og Kelvin Mkwinda frá Malaví.
Fimmhundraðasti nemandinn til að ljúka náminu
Nelly Kerebi frá Kenýa er fimmhundraðasti nemandinn til þess að ljúka Sjávarútvegsskóla GRÓ og fékk hún sérstaka viðurkenningu vegna þessa í útskriftarathöfninni. Magnús Víðisson, aðjúnkt við Auðlindadeild og brautarstjóri í sjávarútvegsfræði, var viðstaddur athöfnina. „Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að vera með GRÓ hópnum á þessu misseri. Það var því virkilega gaman að geta tekið þátt í athöfninni þeirra og fylgjast með nemendunum uppskera eftir vinnuna síðustu mánuði,“ segir Magnús.
„Lykilatriðið er auðvitað aðgengi að góðu fólki við HA“
Námið á Akureyri byggir mikið á upplifun, sjávartengd söfn og fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki voru heimsótt auk þess sem farið var í sjóferð til að veiða fisk sem þau svo rannsökuðu, unnu, elduðu og borðuðu sjálf. Eftirfarandi fyrirtæki voru heimsótt meðan á skólanum stóð og er þeim þakkað sérstaklega: Samherji, Ektafiskur, Hnýfill, Darri, Gjögur, Laxá, DNG, Prímex, Sæplast, Fiskmarkaður Norðurlands, Fiskeldið Haukamýri, Biopól og Dögun.
„Þetta hefur gengið mjög vel og gengur eiginlega betur á hverju ári síðan við byrjuðum þetta námskeið árið 2021. Lykilatriðið er auðvitað aðgengi að góðu fólki við HA. Nálægðin skiptir líka miklu máli. Fiskistofa er bara á hæðinni fyrir ofan, GRÓ nemendur eru með aðstöðu nánast við hliðina á kennurum og leiðbeinendum og deila kaffistofu með þeim. Svo er bara smá skreppitúr að heimsækja áhugaverð fyrirtæki. Nálægðin er mikil auðlind,“ segir Hreiðar Þór Valtýsson, umsjónarmaður GRÓ á Akureyri.