Símenntun Háskólans á Akureyri og Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð Háskólans á Akureyri (KHA) hlutu á dögunum styrk frá Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál að upphæð 400.000 evra. Titill verkefnisins er Seniors Artificial Intelligence Learning – Well Educated and Risk Secure og snýr að því að kenna fólki á þriðja æviskeiðinu hvernig nota skal gervigreind, ásamt því hverju skuli gæta sín á hvað varðar blekkingavef Internetsins. Hugmyndin að verkefninu kviknaði í kjölfar netárásar sem háskólinn lenti í í byrjun síðasta árs. Meðan unnið var úr eftirmálum þeirrar árásar hóf KHA samstarf við fyrirtækið SecureIT og í samtölum kom í ljós hversu mikilvægt netöryggi er orðið í nútímasamfélagi.
Ásamt Háskólanum á Akureyri eru háskólar frá Tékklandi, Grikklandi og Póllandi með í umsókninni sem og íslenska fyrirtækið SecureIT.
Tengslanet, aukið námsframboð, gervigreind og netöryggi
Símenntun og KHA hafa í dag skapað sér sérfræðiþekkingu í að setja upp umgjörð fyrir fjarnám og stafræna hæfni enda dugleg að taka þátt í verkefnum sem snúa að framþróun í þeim efnum. Síðustu ár hafa þau verið í þremur erlendum verkefnum sem nú er búið að klára. Á síðasta ári fengu þau styrk til að leiða verkefnið REACCT og hófu einnig þátttöku í ET-Case. Bæði þessi verkefni snúa að aukinni sjálfbærni og grænum lausnum. Þetta nýja verkefni er sjötta verkefnið sem Símenntun og KHA vinna saman að fyrir hönd háskólans á síðustu þremur árum.
Hlutverk Símenntunar og KHA er líkt og áður að miðla kennslufræðilegri kunnáttu sinni á fjarnámi áfram inn í þessu verkefni, til að gera verkefnin aðgengilegri fyrir almenning í framtíðinni. „Við höfum lært ótal margt á síðustu árum í þessum verkefnum og við hlökkum til að leiða þetta verkefni næstu þrjú ár. Það er okkur gífurlega mikilvægt að styrkja tengslanet okkar á meginlandi Evrópu, enda sést það á okkar námsframboði að netið stækkar bara ár frá ári. Verkefni sem þetta er þarft og spennandi enda engin leið til að spá almennilega fyrir hversu hratt gervigreindin mun þróast á næstu árum. Við þurfum að sjá til þess að við og fólk á þriðja æviskeiðinu sé í stakk búið að verjast þeim hættum sem þarna geta leynst,“ segir Stefán Guðnason, forstöðumaður Símenntunar, aðspurður um afraksturinn af þátttöku í áðurnefndum verkefnum.
Netöryggi og gervigreind er stór þáttur í starfi KHA. „Það er nauðsynlegt fyrir háskóla sem er leiðandi í sveigjanlegu námi og upplýsingatækni að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi eins og þessu. Aukið netöryggi og gervigreind er stór þáttur af okkar starfi og því er einstaklega gaman að fá þennan styrk til að auka okkar þekkingu og hæfni á þessu sviði enn frekar,“ segir Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður KHA að lokum.