Nýtt nám í leikskólafræðum hefst við Kennaradeild Háskólans á Akureyri í haust í samstarfi við Háskóla Íslands. Um er að ræða hagnýtt 60 ECTS diplómanám sem skipulagt er með vinnu.
Ef þú starfar í leikskóla gæti þetta verið þitt tækifæri til að efla fagmennsku þína, þekkingu og færni. Námið er háð ákveðnum skilyrðum og þurfa sveitastjórn og leikskólastjórar að veita samþykki fyrir náminu. Þegar samþykki liggur fyrir fá umsækjendur sendan hlekk að umsóknargátt fyrir námið.
Hvaða skilyrði þarf ég að uppfylla?
- Þú þarft að vera starfandi í leikskóla.
- Þú þarft að hafa að lágmarki þriggja ára starfsreynslu í leikskóla.
- Þú þarft að hafa lokið undirbúningsnámi sem telst eftir atvikum sambærilegt við það sem felst í staðfestri námsbraut fyrir leikskólaliða (leikskólabrú), samkvæmt gildandi aðalnámskrá framhaldsskóla.
- Ef þú hefur ekki lokið undirbúningsnámi þá gilda almennar undanþágureglur Háskóla Íslands.
Kennt verður einu sinni í viku í rauntíma og verða haldnar tvær staðlotur í húsnæði Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands, að vori og hausti, þar sem hvor staðlota stendur yfir í tvo daga. Markmið námsins er að auka fagmenntun innan leikskóla og gefa starfsfólki tækifæri til að nýta starfsreynslu sína og efla það enn frekar í starfi.
Viljayfirlýsing um fagháskólanám í leikskólafræðum var undirrituð 6. október 2022. Markmiðið með viljayfirlýsingunni er að fjölga leikskólakennurum og að fagháskólanámi í leikskólafræðum verði komið á fót og það fest í sessi í öllum landshlutum. Þegar diplómanáminu er lokið geta nemendur sótt um og fengið námið metið að fullu sem fyrsta ár af þremur í B.Ed. námi.
Hvernig fæ ég frekari upplýsingar um námið?
Alda Stefánsdóttir er verkefnastjóri námsins og eru áhugasöm beðin um að setja sig í samband við hana í gegnum netfangið alda@unak.is.